Guðbjörg Jóna Evrópumeistari í 100m

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð Evrópumeistari í 100 metra hlaupi stúlkna 16 – 17 ára. Hún kom í mark á 11,75 sekúndum líkt og þær Pamera Losange frá Frakklandi og Boglár­ka Ta­kács frá Ungverjalandi. Guðbjörg var hins vegar sex þúsundustu úr sekúndu á undan þeim Losagne og Boglárka varð þar af leiðandi í fyrsta sæti.

Guðbjörg Jóna sagði eftir hlaupið að sigurinn hefði komið henni á óvart þar sem 100 metrar séu ekki hennar sterkasta grein. Hún segist hafa einbeitt sér meira að 200 metra hlaupinu. Þar hljóp hún í undanrásum í morgun og er komin áfram í undanúrslit sem fara fram á morgun. Það er hennar sterkasta grein og því verður spennandi að fylgjast með henni þar. Undanúrslitin fara fram klukkan 9:44 og úrslitin klukkan 17:42 á íslenskum tíma.

Myndband af 100 metra hlaupinu og viðtal við Guðbjörgu Jónu má finna á Facebook síðu FRÍ.

 

Í dag kepptu einnig Helga Margrét Haraldsdóttir í kúluvarpi, Elísabet Rut Rúnarsdóttir í úrslitum í sleggjukasti og Valdimar Hjalti Erlendsson í úrslitum í kringlukasti. Helga Margrét kastaði lengst 13,82 metra en kasta þurfti 14,70 metra til að komast í úrslit. Lengsta kast Elísabetar Rutar í dag var 61,94 metrar sem tryggði henni 8. sæti í úrslitum. Valdimar Hjalti, sem er á sínu fyrsta stórmóti, kastaði kringlunni 52,31 metra og varð í 9. sæti.