Góð þátttaka á 82. Meistaramóti Íslands og allir bestu keppa

Nú er lokið forskráningu á 82. Meistaramót Íslands sem fram fer á Laugardalsvelli um helgina.
Mjög góð þátttaka er á mótinu, en um 180 keppendur frá 15 félögum og samböndum eru skráðir til leiks.
Flestir keppendur eru skráðir frá ÍR eða 51, 41 frá FH og 27 frá Breiðabliki, en þessi þrjú félög eru með langflesta keppendur á mótinu.
 
Allt besta frjálsíþróttafólk landsins er skráð á mótið m.a. Ólympíufararnir þrír þau Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni,
Bergur Ingi Pétursson FH og Þórey Edda Elísdóttir FH, en þetta er síðasta stóra mótið sem þau keppa á áður en þau halda til Japans í æfingabúðir fyrir Ólympíuleikana þann 4. ágúst nk.
 
Þeir sjö íþróttamenn sem bætt hafa samtals 13 íslandsmet utanhúss á árinu verða allir með á Meistaramótinu,
en þetta eru:
Karlar:
* Bergur Ingi Pétursson FH, en hann er búinn að bæta metið í sleggjukasti þrívegis á árinu.
* Björgvin Víkingsson FH, en hann bætti metið í 400m grindahlaupi í síðasta mánuði.
* Kári Steinn Karlsson Breiðabli, en hann bætti metin í 5000m og 10.000m í vor.
Konur:
* Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni, en hún hefur tvíbætt metið í spjótkasti, nú síðast um sl. helgi.
* Helga Margrét Þorsteinsdóttir Ármanni, en hún bætti metið í sjöþraut í júní.
* Íris Anna Skúladóttir Fjölni, en hún tvíbætti metið í 3000m hindrunarhlaupi í júní.
* Sandra Pétursdóttir ÍR, en hún tvíbætti metið í sleggjukasti kvenna á sama móti í júní.
 
Meistaramót Íslands er fyrst og fremst einstaklingskeppni og verður keppt um Íslandsmeistaratitla í 19 keppnisgreinum karla og 18 keppnisgreinum kvenna á mótinu. Þá er einnig keppt um Íslandsmeistaratitil félagsliða á mótinu, bæði í karla- og kvennaflokki, sem og í heildarstigakeppni beggja kynja.
Keppt verður eftir nýju fyrirkomulagi í stigakeppni um Íslandsmeistaratitil félagsliða, en stigakeppnin fer þannig
fram að fyrstu sex sæti í hverri grein gefa stig m.v. árangur skv. stigatöflu IAAF. Keppendur í efstu sex sætum
þurfa að ná lágmarksárangri eða 600 stigum til að þeir reiknist til stiga í stigakeppninni fyrir sitt félag.
Með þessu móti skiptir ekki bara röð efstu keppenda máli, heldur ekki síður hvaða árangri þeir ná.
 
Fjölmennustu keppnisgreinar karla eru: 100m hl.(31), 200m hl.(21) og 400m hl.(20).
Fjölmennustu kepnnisgreinar kvenna eru: 100m hl. (22), langstökk (18) og 400m hl.(16).
 
Nú þegar skráningu er lokið verður unnið í uppsetningu mótins og á leikskrá að vera tilbúin á morgun.
Aðalhluti mótins hefst kl. 12:00 á laugardaginn og kl. 14:00 á sunnudaginn á Laugardalsvelli.

FRÍ Author