Glæsilegur árangur á RIG um helgina

Fjölmörg mótsmet og persónuleg met voru sett á frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna sem fram fór í Laugardalshöll síðastliðinn laugardag.

Spretthlauparinn Odain Rose frá Svíþjóð setti nýtt glæsilegt mótsmet í 60 m hlaupi karla strax í undanúrslitum er hann hljóp á tímanum 6,72 sek. Bætti hann þar með gamla mótsmetið um tvo hundraðshluta úr sekúndu en metið var áður 6,74 sek og var það í eigu Kristoffer Hari frá Danmörku, sett í fyrra. Dagur Andri Einarsson FH var fyrstur Íslendinga í mark en hann hjóp á tímanum 6,99 sek í úrslitahlaupinu og er það persónulegt met hjá honum. Kristófer Þorgrímsson FH bætti sig einnig í 60 m og hljóp hann á tímanum 7,08 sek.

Ljósmynd: Sportmyndir.is

Flottur árangur náðist í 800 m karla. Sæmundur Ólafsson ÍR bætti sinn persónulega árangur í annað skiptið í sömu vikunni er hann kom í mark á tímaum 1:54,35 mín en hann átti fyrir 1:54,58 mín . Hugi Harðarsson Fjölni var annar í mark á tímanum 1:56,65 mín á sínum næstbesta tíma og Daði Arnarsson Fjölni hafnaði í 3. sæti á 1:59,77 mín.

Um gríðarlega jafna og spennandi keppni var að ræða í langstökki karla þar sem þrír sterkir erlendur keppendur voru skráðir til leiks. Svo fór að Kristinn Torfason FH stal sigrinum í síðasta stökki er hann stökk 7,66 m og náði hann þar með sínum besta árangri á tímabilinu.

Mikið var um bætingar í langstökki kvenna. Anne-Mari Lethiö frá Finnlandi bar sigur úr býtum með 6,01 m stökki. Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki hafnaði í 2. sæti á persónulegu meti með stökki uppá 5,91 m og María Rún Gunnlaugsdóttir FH hafnaði í 3. sæti með 5,91 m stökki sem er jöfnun á hennar besta árangri.

Hulda Þorsteinsdóttir ÍR setti nýtt mótsmet í stangarstökki kvenna er hún stökk yfir 4,10 m í fyrstu tilraun. Í stangarstökki karla bar Bjarki Gíslason KFA sigur úr býtum með stökk uppá 5,00 m.

Í kúluvarpi karla sigraði Scott Lincoln frá Bretlandi er hann varpaði kúlunni 17,65 m og Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason ÍR hafnaði í 2. sæti er hann varpaði kúlunni 16,64 m. Thelma Lind Kristjánsdóttir ÍR sigraði örugglega í kúluvarpi kvenna er hún varpaði kúlunni 14,70 m.

Ljósmynd: Sportmyndir.is

Úrslitahlaupið í 60 m kvenna var gríðarlega spennandi en fjórar íslenskar og fjórar erlendar spretthlauparakonur hlupu til úrslita. Diani Walker frá Bretlandi sigraði í hlaupinu á tímanum 7,46 sek en hún bætti mótsmetið í undanúrlitunum þegar hún hljóp á tímanum 7,44 sek. Metið var áður 7,46 seki í eigu Lenu Bentsson frá Svíþjóð og hafði það staðið frá 2009. Mathilde Kramer hafnaði í 2. sæti á 7,51 sek og Hanna-Maari Latvala frá Finnlandi var þriðja á 7,66 sek. Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir ÍR kom fyrst íslenskra kvenna í mark á tímanum 7,68 sek.

FH-ingarnir Andrea Torfadóttir, Dóróthea Jóhannesdóttir og María Rún Gunnlaugsdóttir höfnuðu í 6., 7., og 8. sæti í hlaupinu og settu þær allar perónuleg met í hlaupinu.

Ljósmynd: Sportmyndir.is

Hlaupnir voru þrír riðlar í 400 m hlaupi kvenna. Gríðarleg spenna var fyrir síðasta og sterkasta riðlinum en þar voru mættar til leiks þær Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH, Þórdís Eva Steinsdóttir FH og Eva Hovenkamp frá Hollandi. Svo fór að Arna Stefanía kom fyrst í mark á tímanum 54,39 sekúndum og náði hún þar með sínum þriðja besta tíma í 400 m hlaupi innanhúss frá upphafi.

Ljósmynd: Sportmyndir.is

Hlaupnir voru tveir riðlar í 400 m hlaupi karla. Bjarni Anton Theódórsson Fjölni kom fyrstur í mark í B-riðli á tímanum 50,74 sek eftir gríðarlega harða baráttu við Hinrik Snæ Steinsson FH. Marquis Caldwell frá USA kom fyrstur í mark í A-riðli á tímanum 48,69 sek.

Svokallað bætingaregn átti sér stað í 600 m hlaupi pilta 15 ára og yngri en 6 keppendur af 7 bættu sig í hlaupinu. Hlynur Freyr Karlsson Breiðabliki kom þar fyrstur í mark á tímanum 1:29,33 mín. Úlfheiður Linnet FH sigraði örugglega í 600 m hlaupi stúlkna 15 ára og yngri og kom hún í mark á tímanum 1:43,96 mín. Einnig var mikið um bætingar í því hlaupi en 4 af 6 keppendum bættu sig í hlaupinu.

Nýtt glæsilegt mótsmet var sett í hástökki kvenna. Maja Nilsson frá Svíþjóð sigraði örugglega er hún stökk yfir 1,87 m. Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir UMSS hafnaði í 2. sæti á persónulegu meti er hún stökk yfir 1,76 m og Helga Þóra Sigurjónsdóttir Fjölni hafnaði í 3. sæti með 1,70 m.

Gríðarlega hörð keppni átti sér stað í 800 m hlaupi kvenna. Þar voru þrír sterkir erlendir keppendur skráðir til leiks ásamt Anítu Hinriksdóttur ÍR. Svo fór að Emily Cherotich frá Kenýa sigraði í hlaupinu eftir harðan endasprett við Anítu síðustu 100 metrana. Emily hljóp á tímanum 2:02,39 mín, Aníta kom skammt á eftir á 2:02,68 mín og Meghan Manley frá USA var þriðja á 2:04,09 mín.

Ljósmynd: Sportmyndir.is

Emily Cherotich frá Kenýa náði stigahæsta afreki mótsins en hún hlaut 1141 stig fyrir árangur sinn í 800 m hlaupi en hún hljóp á tímanum 2:02,39 mínútum. Spretthlauparinn Odain Rose frá Svíþjóð hlaut flest stig í karlaflokki en hann hlaut 1086 stig fyrir árangur sinn í 60 m hlaupi en hann hljóp á tímanum 6,72 sekúndum.

Eftir þetta mót er nokkuð ljóst að okkar fremsta frjálsíþróttafólk er í hörkuformi þessa dagana og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með því keppa á innanhússtímabilinu sem er bara rétt að byrja.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar öllum keppendum innilega til hamingju með glæsilegan árangur um helgina!

Hér má sjá öll úrslit frá mótinu.

Hér má sjá sjónvarpsútsendingu mótsins.

Hér má sjá myndbönd sem Frjáslíþróttavefurinn Silfrið tók.