Fyrri degi NM í Kaplakrika er lokið, tvö aldursflokkamet féllu

Fyrri degi NM 19 ára og yngri er lokið í Kaplakrika. Mótið fór vel fram og litu margar persónulegar bætingar dagsins ljós. Besti árangur Íslands í dag var í 4 x 100m boðhlaupi en þar settu báðar landssveitir Íslands aldursflokkamet.
 
Stúlknasveit Íslands hljóp á 47,04 sek og auk þess að setja met í flokki 16-17 ára urðu stúlkurnar í 2. sæti. Sveitina skipuðu þær Tiana Ósk Whitworth, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Helga Margrét Haraldsdóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir. Glæsilegur árangur það hjá stúlkunum. Fyrra metið var 47,8 sek síðan árið 1982 en næst besti tímann átti sveit ÍBR síðan á unglingalandsmóti núna í júlí en þá sveit skipuðu Guðbjörg, Tiana, Helga Margrét og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir. Þetta var hápunktur dagsins hjá íslendingunum og þær einu sem komust á pall.
Í piltaflokki féll met í flokki 18-19 ára flokki þegar piltarnir hlupu á 42,27 sek en eldra metið var 42.54 sek. Sveitina skipuðu þeir Gunnar Eyjólfsson, Trisan Freyr Jónsson, Kormákur Ari Hafliðason og Gylfi Ingvar Gylfason. Eldra metið var síðan árið 2014 en þá sveit skipuðu þeir Kolbeinn Höður Gunnarsson, Krister Blær Jónsson (bróðir Tristans), Jóhann Björn Sigurbjörnsson og Sindri Hrafn Guðmundsson. Flott hjá piltasveitinni.
 
Nokkrir úr íslenska liðinu bættu sinn besta árangur í dag, það voru Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í 400m grindahlaupi, 62.28 sek, Rún Árnadóttir í sleggjukasti 46.53 m og Tiana Ósk Whitworth í 100m 12.42 sek. Guðbjörg átti best 62.90sek, Rún best 42,19m og Tiana best 12.62 sek svo þetta var fín bæting hjá þeim öllum. Til hamingju stelpur. Öll úrslit má sjá inni í mótaforritinu Þór en keppnin heldur áfram í fyrramálið kl. 10:20. 

 

FRÍ Author