Fróðleikur um bandaríska háskóla fyrir íþróttafólk

Háskólum í Bandaríkjunum er skipt upp í þrjár deildir, Division I, II og III hvað varðar styrk. Skiptingunni ræður stærðargráða, fjármunir, skólastyrkir og aðstaða.

 • 1. deild telur um 350 háskóla af 1.066 háskólum í NCAA háskólasambandinu
 • 2. deild býður upp á skólastyrki, en ekki af sömu getu
 • 3. deild býður yfirleitt ekki upp á styrki

1. deildar skólar verða að keppa sína á milli og strangar reglur gilda um ef þeir ætla að keppa „niður fyir sig.“ Keppa verður ákveðið oft á ári. Takmörk eru á skólastyrkjum til að stuðla að jafnvægi milli skóla. Þá verða skólarnir að bjóða upp á minnst sjö íþróttir fyrir konur og sex fyrir karla, eða átta íþróttir fyrir konur og sex íþróttir fyrir karla. Minnst verða skólar að bjóða upp á tvær hópíþróttir, oftast ruðningur, körfubolti, blak, hafnarbolti eða hokkí. Frekar lítil takmörk eru varðandi aðstöðu og því leggja ríkari skólar mikinn metnað og fjármuni í þann þátt, sem og þjálfun og aðhald, sjúkraþjálfun, búnað, ferðalög, hótel í keppnisferðum og svof ramvegis. Í 2. deildinni verða íþróttirnar að vera fimm og allt er í minni stærðargráðu, en þó mun betra en gerist á Íslandi.

Árlega velta íþróttir í 1. deild um 10 milljörðum dollara sem er um það bil 1200 milljarðar í íslenskum krónum, mest tengt amerískum fótbolta. Það hefur verið til umræðu undanfarin ár að íþróttafólk fái greitt fyrir erfiðið, en hingað til hafa reglur verið mjög strangar um að íþróttafólk sé hreint og beint áhugafólk.

Skólarnir

 • 1. deildar skólar hafa minnst þúsund íþróttamenn og nemendur alls eru yfirleitt 15 til 55 þúsund
  • Karlar – 280 háskólar með frjálsíþróttalið með um 11 þúsund iðkendur. Um 30 skólar eru með lið í víðavangshlaupum eingöngu, alls 311 skólar með um 5 þúsund iðkendur.
  • Konur – 330 háskólar með frjálsíþróttalið með um 13 þúsund iðkendur. Tólf skólar eru með lið í víðavangshlaupum eingöngu, alls 342 skólar með um sex þúsund iðkendur.
 • 2. deildar skólar er rúmlega 300 talsins og tólf þeirra með meira en 15 þúsundur nemendur. Flestir eru hins vegar með undir þrjú þúsund nemendur
  • Karlar – 210 háskólar með frjálsíþróttalið með um sjö þúsund iðkendur. Um 70 skólar eru með lið í víðavangshlaupum eingöngu, alls 280 skólar með um fjögur þúsund iðkendur.
  • Konur – 236 háskólar með frjálsíþróttalið með um sjö þúsund iðkendur. 70 skólar eru með lið í víðavangshlaupum eingöngu, alls 306 skólar með um fjögur þúsund iðkendur.
 • 3. deildar skólar eru um 450 talsins og þar er raunar mesti fjöldi iðkendur en nákvæmar tölur eru ekki haldbærar. Má áætla um 20 þúsund iðkendur samanlagt.

Keppnistímabil í frjálsum

 • Haust – Víðavangshlaup í september fram í desember
 • Vetur – Innanhúss í janúar fram í mars
 • Vor – Utanhúss frá mars fram í júní fyrir þau sem komast á háskólameistaramótin, annars fram í maí

Fyrirkomulag íþróttamála

Bandaríkjunum er skipt upp svæði sem skólar tilheyra, t.d. SuðAustur, Big-12, Atlantic conference og svo framvegis. Skólar leggja mikinn metnað að standa sig vel á svæðismeistaramótum, að skora sem flest stig. Fyrst og fremst vill skólinn standa sig vel í liðakeppni, en næst á eftir er að komast á pall sem einstaklingur. Það er fyrsti lykillinn að skólastyrkjum. Gullni lykillinn felst í getu til að skora stig á háskólameistaramótum sem fyrst og sem mest.

Svæðismeistaramót í frjálsum eru haldin innanhúss og utanhúss. Innanhúss öðlast þau allra bestu keppnisrétt beint á háskólameistaramót en utnahúss þá er millikeppni þar sem landinu er skipt í fjórðungs-undankeppni meðal 64 bestu í hverri grein innan svæðana sem teljast til fjórðungsins. Þaðan komast tólf bestu á lokameistaramótið sem fram fer um það bil aðra vikun í júní. Fjölþrautafólk er undaskilið frá fjórðungsmótunum. Það er síðan aðalkeppikefli einstaklinga að verða „All-American“ með því að vera í einu af átta efstu sætunum á meistaramótinu. Ekki er stigakeppni í fjórðungsmótinu, en á lokamótinu er það stóra málið fyrir skóla að skora vel sem lið. Það þarf heimsklassa árangur til að skora á þessum mótum, en það hafa örfáir Íslendingar gert í gegnum tíðina hingað til.

Undanfarin ár hafa Florida, Oregon og Texas A&M verið hvað sterkustu skólarnir í karlakeppni en Oregon, Arkansas og Texas A&M hjá konum. Dæmi eru um að meistaratign hafi verið tekin af skólum vegna brota á reglum og vegna lélegs námsárangurs einstaklings.

Skólastyrkir eru takmarkaðir í fjölda og upphæð til að stuðla að jafnvægi milli skóla og íþrótta innan skóla. Þeir geta falist í samsetningu af námsgjöldum, bókum, húsnæði og mat. Það íþróttafólk sem gefur hvað besta von um stig á háskólameistaramótum getur fengið allan pakkann. Í frjálsum/víðavangshlaupum mega karlalið bjóða upp á 12,6 styrki, en 18 styrki hjá konum.

Námsgjöld eru mismunandi há. Þau geta farið eftir borg, staðsetningu, gæðagráðu og hvort skólinn sé einkarekinn eða opinber. Algengt er að skólar hafi tvískipt gjöld annars vegar fyrir íbúa fylkisins eða utanaðkomandi og er þau gjarnar þrisvar sinnum hærri.

Einungis gildir keppnisréttur í fjögur ár. Þó geta keppnistímabil verið reiknuð af út af aldri og keppnisferli hjá eldri nemendum, sérstaklega erlendis frá vegna öðruvísi skólakerfa. Því geta Evrópubúar mögulega haft rétt á að keppa minna en fjögur ár. Þá geta stúdentar frá Íslandi fengið sum fög metin og þar af leiðandi sparað tíma og kostnað. Hægt er að sitja út keppnistímabil, innahúss eða utanhúss, vegna meiðsla eða veikinda. Það kallast „red-shirt“. Það fer þá eftir íþróttamanni hvort hann vilji draga námið á langinn til að nýta keppnisréttinn. Eitthvað er svo um að fólk færi sig milli skóla, oft með aðstoð og hjálp frá öllum tengdum aðilum miðað við aðstæður.

Þjálfarar eru upp og ofan. Margir vel menntaðir, reyndir og fyrrum keppendur. Þeim er yfirleitt vel borgað, sérstaklega aðalþjálfurum. Það er mistækt hvernig þjálfarar meta liðsmenn sína. Allt frá því að virða einstaklingana vel upp í það að sjá þá eingöngu sem peð í að skora stig fyrir sig og skólann. Þá má oft búast við að heimsklassa atvinnuíþróttafólk sé að æfa við háskólana í samvinnu við þjálfara skólans. Það er mikil hvatning og reynsla fyrir nemendur að æfa með þeim.

Sumir skólar eru með sameiginlegt karla og kvennalið. Það er að færast í aukana. Aðrir skólar hafa liðin aðskilin að miklu leiti.

Hvað þarf til að komast í háskóla í USA?

Það er margt að skoða ef stefnan er sett á háskólanám og íþróttaiðkun í USA. Stígandi framfarir í sportinu og góður námsárangur er grunnurinn. Enskugetan er mikilvæg en íslenskir stúdentar eru yfirleitt vel settir þar. Farið er fram á að tvenns konar próf séu tekin; SAT (Scholastic Aptitude Test) og TOEFL (Test of English as a Foreign Language). Auðvelt er að afla sér upplýsinga á netinum um ksotnað, staðsetningu og tímasetningu slíkra prófa á Íslandi. Best er að undirbúa sig vel og ráðfæra sig við íþróttafólk sem hefur tekið prófin. Allt þetta þarf góðan fyrirvara. Taka prófin í tæka tíð og jafnvel oftar en einu sinni ef með þarf.

Yfirleitt mæta þjálfarar frá stærri háskólum USA á Evrópu- og Heimsmeistaramót unglinga. Þar eru þeir að leita eftir góðu fólki til að koma til sín. Þau allra bestu geta því náð tengingum þar. Annars er að ráðfæra sig við íslenskt íþróttafólk sem hefur reynslu og tengslanet varðandi skóla sem henta. Það er sterkur leikur að afla sér upplýsinga um skólana á netinu. Skoða heimasíðu þeirra, lista yfir íþróttafólkið, hvort útlendingar séu í liðunum sem og yfirlit ferils þjálfaranna. Það eru þó reglur um hvernig og hvar þjálfarar mega vera í sambandi við íþróttafólkið. Ef mál komast á rekspöl, má búast við að skólar bjóði íþróttafólki að koma frítt í heimsókn til að kynnast. Best er að reyna að setja tvo til þrjá skóla í hverja ferð.

Mikil áhersla er lögð á að íþróttafólkið sinni námi sínu vel. Það er yfirleitt boðið upp á góðan stuðning þar sem íþróttafólkið getur unnið með sérhæfðu aðstoðarfólki til að vinna verkefni, undirbúa sig fyrir próf og þess háttar. Það þarf að halda ákveðnum einkunnum (GPA – Grade Point Average) til að halda styrkjum og keppnisrétti.

Bandaríkin eru ansi fjölbreytt. Hafa ber í huga staðsetningu hvað varðar hitastig, veðurfar, menningu, nálægð við stóra flugvelli, mengun, menningu, framfærslukostnað og jafnvel framboð á mat. Utah, Nevada og Colorado eru hátt yfir sjávarmáli. Heitt og rakt getur verið í suðrinu snemma hausts og að vori en vetur mildur og góður. Ískalt og vindasamt í norðrinu á meðan vor og haust eru mild og góð. Mikil rigning í Seattle, en skrjáfþurrt í Arizona. Hvirfilbylir um miðbikið, fellibylir við strendur, skógareldar í Florida, Texas og Kaliforníu. Að öllu jöfnu eru þó skólar með gott öryggiskerfi og þeir byggðir á traustum stöðum. Það þarf ótrúlegt ólán til að verða fyrir einhverju misjöfnu.

Það er því margt að skoða varðandi að velja skóla, stað, sækjast eftir að komast í lið og fá styrki. Þjálfarar bestu skólanna geta valið úr þeim allra bestu, úr Bandaríkjunum og víðsvegar að úr heiminum. Sumir þjálfarar sækjast eftir útlendingum, meðan aðrir forðast þá og allt þar á milli. Þó er mest sóst eftir heilstæðum einstaklingum með góðar einkunnir og karakter sem sýnir fram á getu og vilja til að ná langt. Um að gera er að leita um og skoða á vefnum.

Þá getur verið gott ráð að notfæra sér þjónustur sem sérhæfa sig í að landa íþróttafólki í skólum. Tekið er mið af afreksgetu, námsárangri, markmiðum og þeim þáttum sem skipta máli fyrir báða aðila. Hér er dæmi um slíka þjónustu, www.scholarbook.net

Tekið saman af Stefáni Þór Stefánssyni fyrir Facebook síðuna Íslenskt Frjálsíþróttafólk í háskólum USA