Frjálsíþróttasumarið 2019

Sumarið er hafið og fer keppnistímabilið nú brátt að hefjast. Flestir hafa lagt hart að sér við æfingar í vetur og geta vart beðið eftir því að komast út á brautina og sýnt hvað í þeim býr. Framundan er mörg mót, stór sem smá, innlend sem erlend. Hér verður farið yfir það helstu mót sumarsins 2019.

Smáþjóðleikarnir

Smáþjóðleikarnir fara fram í Svartfjallalandi 27. maí til 1. júní. Þeir eru haldnir annað hvert ár, alltaf á oddatöluári frá árinu 1985. Þátttökurétt á mótinu eiga þjóðir í Evrópu með íbúatölu undir einni milljón. Auk Íslands eru það Andorra, Mónakó, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, San Marínó og Svartfjallaland. Keppt verður í nokkrum íþróttagreinum en flestir verða keppendur í frjálsíþróttum eða 222 talsins.

Keppnisdagarnir í frjálsum verða þrír, 28., 29. og 31. maí. Ísland mun senda út sterkt lið þar sem stefnan er sett á verðlaunasæti í öllum greinum. Íslensku keppendurnir verða 22 auk fararstjóra, þjálfara og sjúkraþjálfara. Liðið í heild sinni má sjá hér.

Keppnisfyrirkomulagið á leikunum er með þeim hætti að sú þjóð sem fær flest gullverðlaun vinnur leikana. Sé jafnt í gullverðlaunum milli tveggja þjóða verður farið í silfurverðlaun og svo framvegis. Aðeins er hverri þjóð heimilt að senda tvo keppendur í hverja grein. Íslandi hefur gengið vel síðustu árin og er stefnan sett á áframhaldandi velgengni.

Á smáþjóðleikunum 2017 fór Kýpur með sigur af hólmi með fjórtán gullverðlaun. Ísland kom þar næst á eftir með ellefu. Árið 2015 fóru smáþjóðleikarnir fram á Íslandi. Íslendingar nýttu sér það vel og sigruðu leikana með fimmtán gullverðlaun gegn tíu gullverðlaunum hjá Kýpur.

Í ár má því búast við áframhaldandi baráttu milli Kýpverja og Íslendinga um gullið en einnig verður spennandi að fylgjast með Svartfjallalandi. Þeir verða á heimavelli og munu því senda fullt lið á mótið og gætu því auðveldlega blandað sér í báráttuna um gullið.

Heimasíðu mótsins má finna hér.

Norðurlandameistaramót unglinga í fjölþrautum

Í ár fer mótið fram í Uppsala, Svíþjóð 8. – 9. júní. Keppt verður í flokki 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Ekki er komið á hreint hvaða íslensku keppendur verða á mótinu þar sem tímabilið til þess að ná lágmörkum er enn opið. Gert er ráð fyrir því að íslenskur keppendalisti verði birtur 27. maí.

Í fyrra varð Irma Gunnarsdóttir Norðurlandameistari í sjöþraut í flokki 20-22 ára. Hún fékk 5403 stig og sigraði með yfirburðum. Í sama aldursflokki fékk Benjamín Jóhann Johnsen silfurverðlaun þar sem hann hlaut 6443 stig.

Meistaramót Íslands 15-22 ára

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer að þessu sinni fram 15. – 16. júní á Selfossi. Á þessu móti munu ekki einungis framtíðarstjörnur íslenskra frjálsíþrótta keppa heldur er margt af okkar fremsta íþróttafólki enn á þessum aldri. Mikið af þessu unga keppnisfólki hefur mikla reynslu af alþjóðlegum mótum og því verður spennandi að fylgjast með þeim etja kappi við jafnaldra sína víðs vegar um landið.

Meðal keppenda á mótinu má gera ráð fyrir því að verði Evrópu- og Ólympíumeistari ungmenna, Norðurlandameistarar og Íslandsmethafar og Íslandsmeistarar í fullorðinsflokki.

Bauhaus Junioren Gala

Bauhaus Junioren Gala er mjög sterkt alþjóðlegt unglingamót sem fer fram í Mannheim í Þýskalandi. Mótið er haldið árlega og í ár fer það fram 29. – 30. júní. Val á keppendum verður tilkynnt 9. júní en átta Íslendingar hafa náð lágmarki á mótið. Það eru Birna Kristín Kristjánsdóttir, Elísabet Rut Rúnarsdóttir, Erna Sóley Gunnarsdóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Hinrik Snær Steinsson, Tiana Ósk Whitworth, Valdimar Hjalti Erlendsson og Þórdís Eva Steinsdóttir. Að auki er stefnt að því að senda 4×100 metra boðhlaupssveit stúlkna.

Evrópubikarkeppni landsliða í fjölþrautum

Evrópumeistaramótið í fjölþrautum fer fram í Portúgal 6. – 7. júlí. Mótið er liðakeppni þar sem landslið Íslands keppir. Árið 2017 sendu Íslendingar sjö keppendur á mótið. Í karlaflokki náði Tristan Freyr Jónsson bestum árangri íslensku keppendana en hann endaði í fjórða sæti. Í kvennaflokki var það María Rún Gunnlaugsdóttir sem endaði í níunda sæti. Í ár keppi Ísland í 2. deildinni og mun freista þess að komast upp í 1. deildina.

Evrópumeistaramót U23

EM U23 fer fram í Gävle, Svíþjóð 11. – 14. júlí. Keppendur á mótinu verða vera á aldrinum 20-22 ára. Það er síðasti aldursflokkurinn fyrir fullorðinsflokk og því má búast við sterku móti þar sem bestu ungmenni Evrópu munu keppa.

Fjórir Íslendingar hafa nú þegar náð lágmarki á mótið. Það eru Andrea Kolbeinsdóttir í 3000 metra hindrunarhlaupi, Dagbjartur Daði Jónsson í spjótkasti, Irma Gunnarsdóttir í sjöþraut og Thelma Lind Kristjánsdóttir í kringlukasti. Frestur til þess að ná lágmarki er til 1. júlí og því gætu fleiri íslenskir keppendur bæst í hópinn.

Þeir sem vilja kynna sér mótið betur geta gert það á heimsíðu mótsins sem má finna hér.

Meistaramót Íslands

Meistaramótið fer fram 13. – 14. júlí á ÍR vellinum sem er þessa stundina verið að byggja. Tartanið verður því glænýtt og má búast við því að aðstaðan verði með besta móti. Fyrir mörgum er Meistaramót Íslands stærsta mót sumarsins og klárlega það stærsta sem haldið verður hér á landi í sumar.

Allt fremsta frjálsíþróttafólk landsins verður samankomið á þessu móti, mun leggja frændskap og vinsemi til hliðar og berjast til síðasta blóðdropa um Íslandsmeistaratitillinn. Mótið fer fram yfir eina helgi þar sem dagskráin verður þétt, mótið spennandi og með góðum stuðningi áhorfenda er möguleiki á nýjum Íslandsmetum.

Evrópumeistaramót U20

EM U20 fer fram í Borås, Svíþjóð 18. – 21. júlí. Á mótinu verða fremsta frjálsíþróttafólk Evrópu á aldrinum 16-19 ára. Sex Íslendingar hafa náð lágmarki á mótið. Það eru Birna Kristín Kristjánsdóttir í langstökki, Erna Sóley Gunnarsdóttir í kúluvarpi, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í 100m, 200m og 400m, Tiana Ósk Whitworth í 100m og 200m, Valdimar Hjalti Erlendsson í kringlukasti og Þórdís Eva Steinsdóttir í 400m. Einnig er stefnt að því að senda 4×100 metra boðhlaupssveit stúlkna.

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram í Azerbaidjan 22. – 27. júlí og er fyrir aldursflokkinn 16-17 ára. Að hámarki verða sex keppendur valdir á mótið og aðeins einn í hverri grein. Ekki eru gefin út lágmörk fyrir mótið heldur verða aðeins okkar sterkustu keppendur valdir þar sem miðað er við árangur sem myndir duga í 10. sæti miðað við úrslit tveggja síðustu leika. Valið verður tilkynnt 26. júní.

53. Bikarkeppni FRÍ

Bikarkeppni FRÍ fer fram laugardaginn 27. júlí. Keppt í níu greinum í karla- og kvennaflokki og er mótið því stutt og áhorfendavænt. Bikarkeppnin er liðakeppni þar sem einungis einn frá hverju félagi keppir í hverri grein og snýst allt um að safna stigum fyrir félagið sitt. Því mun mótið reyna á samheldni og liðsheild. Hvatning liðsfélaga skiptir einnig miklu máli þar sem oft munar ekki nema einu stigi milli sigurliðsins og þess sem lendir í öðru sæti. Hver sentimeter og hvert sekúndubrot getur því skipt sköpum. Það gerir það að verkum að mótið er gríðarlega spennandi allt fram að lokagrein sem er boðhlaup. Sigurvegarar í heildarstigakeppninni í fyrra var ÍR.

Evrópubikarkeppni landsliða

Evrópubikar verður haldin 9. – 11. ágúst í glæsilegum þjóðarleikvangi Makedóníu sem tekur 34.500 manns í sæti. Á mótinu keppir landslið Íslands sem lið gegn fjórtán öðrum þjóðum. Mótið er haldið á tveggja ára fresti. Keppt er í nokkrum deildum þar sem 1. deild er sú sterkasta. Árið 2017 féll Ísland úr 2. deild og mun því keppa í 3. deild í ár. Má því gera ráð fyrir sterku liði frá Íslandi í ár þar sem stefnan er sett á að komast aftur upp í 2. deild.

Meistaramót Íslands í fjölþrautum

MÍ í fjölþrautum fer fram á Akureyri 17. – 18. ágúst. Þar verður fremsta fjölþrautarfólk landsins samankomið til þess að keppast um Íslandsmeistaratitilinn.

Norðurlandameistaramót U20

NM U20 fer fram í Noregi 17. – 18. ágúst og er fyrir aldursflokkinn 15 – ára. Íslendingar og Danir tefla fram sameiginlegu liði gegn hinum Norðurlandaþjóðunum.  Tveir íþróttamenn verða valdir í hverja grein óháð þjóðerni. Það verður því borinn saman ársbesti listinn hjá Danmörku og Íslandi og þeir tveir sem eru með besta árangurinn í grein verða valdir til að keppa fyrir sameiginlegt lið Íslands og Danmerkur.

Heimsmeistaramót

HM í frjálsum íþróttum fer fram í Katar 27. september – 6. október. Þetta er án efa lang stærsta mót ársins í frjálsum íþróttum og meðal keppenda verða einungis þeir allra bestu í heiminum. Draumur hvers íþróttamanns er að keppa á þessu móti og árið 2017 áttu Íslendingar þrjá fulltrúa. Það voru Aníta Hinriksdóttir, Ásdís Hjálmsdóttir og Hilmar Örn Jónsson.

Til þess að öðlast þátttökurétt á mótinu þarf að ná lágmarki sem gefin hafa verið út en er ansi ströng. Einnig er hægt að komast inn með því að vera ofarlega á heimslistanum. Þeir Íslendingar sem líklegastir eru til þess að komast inn á HM eru þau sömu og kepptu á HM árið 2017 auk Guðna Vals Guðnasonar, Hlyns Andréssonar, Hafdísar Sigurðardóttur og Sindra Hrafns Guðmundssonar. Íþróttamenn hafa til 6. september til þess að ná lágmörkum á mótið.

Við hvetjum alla til þess að mæta á stærstu mótin hérlendis og fylgjast með íslenska frjálsíþróttafólkinu á alþjóðlegum vettvangi. Fréttir, úrslit, myndir og myndbönd verða sett inn á samfélagsmiðla FRÍ sem eru Instagram, Facebook og YouTube.