Frjálsíþróttadeild FH ræður Dr. Milos Petrovic sem spretthlaupsþjálfara

Dr. Milos Petrovic hefur verið ráðinn spretthlaupsþjálfari hjá Frjálsíþróttadeild FH. Milos eins og hann er kallaður hefur víðtæka reynslu af þjálfun og ráðgjöf við íþróttafólk. Hann er menntaður íþróttafræðingur frá Serbíu og með PhD í Biomechanics frá Manchester Metropolitan háskólanum & Kaþólska háskólanum í Leuven í Belgíu.

Milos starfar sem nýdoktor við læknadeild Háskóla Íslands við rannsóknir og kennslu þessi misserin. Hann er sérfræðingur í mælingum á íþróttafólki með tillti til hvernig hægt er að hámarka árangur sinn. Milos hefur verið í ráðgjafateymi fyrir heimsklassa íþróttafólk og nægir þar að nefna nýkrýndan Evrópumeistara kvenna í langstökki, Ivana Španović, sem hann hefur aðstoðað frá 2013 auk fjölda annarra afreksmanna. Milos tekur við þjálfunni af Ara Braga Kárasyni sem hefur þjálfað hópinn í vetur. Þess má geta að Milos var sjálfur hástökkvari og á 2,12m í þeirri grein. Það er mikill fengur fyrir FH að fá Milos til starfa og ríkir mikil tilhlökkun um samstarfið.