Framúrskarandi keppendur á NM unglinga á Akureyri

Til leiks eru mættir flestir bestu keppendur Norðurlandanna í þessum aldursflokkum. Má þar nefna hina 18 ára gömlu Isabelle Pedersen frá Noregi en hún var þriðja í 100m grindarhlaupi á HM unglinga sem fram fór í Moncton í Kanada í síðasta mánuði. Til leiks eru líka mættar fyrir Íslands hönd, þær Hulda Þorsteinsdóttir sem komst í úrslit í stangarstökki í Moncton og Sveinbjörg Zophoníasdóttir sem varð áttunda í langstökki á sama móti. Þær eiga báðar möguleika á verðlaunum í sínum greinum á þessu móti, en Sveinbjörg er með bestan skráðan árangur keppenda í langstökkinu að þessu sinni. Stefán Árni Hafsteinsson keppir í stangarstökki, en hann sigraði nýlega á unglingamóti DN Galan í Svíþjóð, sterku alþjóðlegu móti. Stefanía Valdimarsdóttir á einnig góða möguleika á verðlaunasæti í 400m grindarhlaupi.

Búast má við jafnri keppni í stangarstökki kvenna, en allar eiga þær mjög svipaðan árangur, en Hulda er með bestan árangur af þeim sem hafa skráðan árangur á mótið. Í sleggjukasti karla verður keppni milli Svíans Elias Hakansson sem best hefur kastað 71,33m og Finnans Mikko Kostiranta sem á best skráð 67,18m. Í 400m grindarhlaupi kvenna verður keppni jöfn og spennandi en allar stúlkurnar eru skráðar með svipaðan árangur. Stefanía Valdimarsdóttir á góða möguleika á verðlaunum og jafnvel sigri með vel útfærður hlaupi. Í kúluvarpi karla verður jöfn og mikil keppni milli Svíanna og Finnans Tuomas Martin, en þeir eiga allir köst 18m eða lengra. Mikil keppni verður í 5.000m hlaupi á milli Danans Jeppe Harboe og Finnans Oskari Pennanen, en þeir eiga báðir árangur undir 14 mín. og 40 sek.

Tveir stangastökkvarar eiga árangur yfir 5 metrum, þeir Henri Vayrenen frá Finnlandi og Svíinn Petter Olsson og má búast við að þeir takist á um sigurinn í þessari grein.  Besti Norðmaðurinn í grindarhlaupi í ár Vladimir Vukicevic keppir í 110 m grindarhlaupi, en hann á 13,42 sek. með lágu grindinni, en 14,42 sek. með hærri grindinni sem keppt er með í fullorðinsflokki. Thomas Roth frá Noregi verður að teljast sigurstranglegur í 800m hlaupi, en hann á bestan árangur 1 mín. 48,16 sek., en landi hans og nafni, Thomas Solberg kemur skammt þar á eftir með 1:50,33 mín.

Eins og áður sagði á Sveinbjörg góða möguleika á verðlaunum, jafnvel sigri í langstökkinu, en hún fær keppni frá Hanna Wiss frá Finnlandi sem á best 6,00m og Josephine Rohr frá Svíþjóð sem á 1 cm betur, en Sveinbjörg stökk 6,10 m á Evrópubikarkeppninni í Tel-Aviv í lok júní sl.

Búast má við að baráttan í stigakeppninni standi sem áður á milli Finna og Svía. Norðmenn er með óvenju gott lið að þessu sinni og gætu blandað sér í baráttuna, en sem dæmi er einn keppendandi úr Super League liði Norðmanna frá því fyrr á þessu ári. Sameiginlegt lið Dana og Íslendinga er fjölmennast, en nokkuð vantar á að hinar þrjár þjóðirnar mæti með tvo keppnendur í allar greinar, eins og heimilt er. Ungur haldur háir Íslensku keppendunum nokkuð, en hinar þjóðirnar eru allar með keppendur sem eru 18 eða 19 ár á árinu. Yngst keppenda á mótinu er Aninta Hinriksdóttir, en hún keppir í 1.500m hlaupi. Hún er aðeins 14 ára á þessu ári og er langyngst keppenda. Almennt eru Íslensku keppendurnir yngri en keppnautar þeirra frá hinum Norðurlöndunum.

Tímaseðill er á heimasíðu FRÍ og öll úrslit verða birt jafnóðum á Mótaforriti sambandsins (http://mot.fri.is/cgi-bin/ibmot/timesedillib1477.htm) og verður hægt að fylgjast með framgangi keppninnar þar.

FRÍ Author