Framkvæmdastjóri kveður

Undirritaður lætur af störfum sem framkvæmdastjóri FRÍ í dag.
 
Ég vil þakka öllum stjórnarmönnum FRÍ og sambandsaðila, starfsmönnum, þjálfurum, dómurum og íþróttafólkinu sem ég hef haft samskipti við í störfum mínum fyrir sambandið á undanförnum 12 árum fyrir góð og skemmtileg samskipti að málefnum frjálsíþrótta í landinu.
 
Þó svo að ég sé hættur í þessu starfi, þá hef ég ekki sagt skilið við frjálsíþróttahreyfinguna, þessi hreyfing hefur gefið mér allt of mikið til þess, bæði sem íþróttamanni, þjálfara og nú síðustu árin sem framkvæmdastjóri FRÍ.
 
Ég sé ykkur vonandi sem flest á 83. Meistaramóti Íslands í Kópavogi um helgina, þar sem ég ætla að aðstoða félaga mína í Breiðabliki við framkvæmd mótins, enda segir engin nei við höfðingja eins og Magnús Jakobsson ef hann biður um aðstoð við framkvæmd frjálsíþróttamóts.
 
Jónas Egilsson fv. formaður FRÍ mun taka við af mér tímabundið þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn til FRÍ síðar í sumar.
 
Það er bjart framundan, íþróttafólkið okkar hefur verið að gera frábæra hluti á undanförnum dögum og vikum og verður spennandi að fylgjast með því hér heima og erlendis í sumar.
 
Eitt að þeim verkefnum sem ég hef sinnt undanfarin ár er að flytja fréttir úr starfinu hér á síðunni og verður þetta því mín síðast frétt sem framkvæmdastjóri FRÍ.
 
Með íþróttakveðju,
 
Egill Eiðsson

FRÍ Author