Fjórða Gullmótið fer fram í París í kvöld, sýnt á RUV kl. 23:45

Fjórða Gullmót IAAF fer fram á Saint-Denis leikvanginum í París í kvöld. Nú eru aðeins tvær íþróttakonur eftir í keppninni um milljón dala gullpottinn, þær Blanka Vlasic frá Króatíu í hástökki og Pamela Jelimo frá Keníu í 800m hlaupi.
 
Á síðasta móti í Róm náðu þau Bernshawn Jackson (400gr), Hussein Al-Sabee (langstökk) og Josephine Onyia (100gr) ekki að sigra í sínum greinum. Þau eiga þó ennþá möguleika á sárabót eða hlut í hálfri milljón dollara gullpotti, nái þau að sigra á mótinu í kvöld og síðan á tveimur síðustu mótunum í Zürich (29. ágúst) og Brussel (5. sept.) og þeim Vlasic og Jelimo fatist flugið í kvöld eða seinustu mótunum.
 
Það er þó fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að Blanka Vlasic tryggi sér hlut í pottinum, enda hefur hún mikla yfirburði í hástökki kvenna um þessar mundir. Það kæmi hinsvegar mjög á óvart ef hin 18 ára gamla Jelimo næði að tryggja sér sigur á öllum mótunum, þrátt fyrir fádæma yfirburði í Róm um síðustu helgi.
Í kvöld mætir engin önnur en Maria Mutola í 800m hlaupið og verður gaman að sjá hvort unglingurinn Jelimo beri einhverja virðingu fyrir þessari miklu hlaupakonu frá Mósambik, eða taki bara strax á rás og leiði hlaupið frá upphafi til enda eins og í Róm?
 
Gullmótið verður sýnt kl. 23:45 á RUV í kvöld.
Sjá nánari upplýsingar s.s. keppendalista og fl. á www.iaaf.org

FRÍ Author