Fjölmennt og æsispennandi 400 m hlaup í vændum

Það stefnir í spennandi keppni í 400 m hlaupi kvenna á frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna á laugardaginn. Þar munu fremstu 400 m hlaupakonur landsins etja kappi við þrjá erlenda hlaupara. Tíu keppendur eru skráðir til leiks og verður keppt í þremur riðlum en keppni í 400 m hlaupi kvenna hefst kl. 13:35.

Hlaupakonurnar Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH og Þórdís Eva Steinsdóttir FH verða í eldlínunni en þær keppa báðar í A-riðli við ógnarsterka erlenda keppendur. Arna Stefanía sigraði örugglega í 400 m hlaupinu í fyrra og setti nýtt mótsmet þegar hún hljóp á tímanum 53,92 sekúndum. Arna Stefanía á best 53,91 sek utanhúss frá því á Meistaramóti Íslands 2016. Þórdís Eva hefur verið að hlaupa vel að undanförnu eftir að hafa glímt við erfið meiðsli í fyrra. Hún hljóp flott hlaup á Stórmóti ÍR fyrir tveimur vikum síðan og verður spennandi að sjá hvaða árangur þessi unga og efnilega hlaupakona nær um helgina.

Með Örnu Stefaníu og Þórdísi Evu í riðli eru þær Cynthia Bolingo frá Belgíu og Eva Hovenkamp frá Hollandi. Cynthia á besta tímann, 52,60 sek utanhúss frá árinu 2015, og Eva á best 52,83 sek utanhúss frá því í maí í fyrra.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar öllum keppendum góðs gengis um helgina og minnir á miðasöluna sem er í fullum gangi á midi.is.

Ljósmyndari: Sportmyndir.is