Fjóla Signý íþróttakona Árborgar 2012

Fjóla Signý keppti á Folksam Challenge mótinu í Svíþjóð og gerði hún sér lítið fyrir og sigraði 400m grindahlaup og vann meðal annars Fridu Persson sem er númer 56 á topplistanum í Evrópu í sumar í 400m grindahlaupi. Fjóla Signý var auk þess í bronssveit Íslands í 4x400m boðhlaupi sem hljóp á sínum besta tíma í mörg ár. Hún varð í öðru sæti á Sænska meistaramótinu í fjölþrautum þar sem hún náði 5041 stigum og stórbætti sig og var rétt við fyrsta sætið. Hún sigraði í 60m grindahlaupi á Team Sportia Spelen auk þess sem hún sigraði bæði í 100m og 400m grindahlaupum á móti á Spáni í vor.
Fjóla Signý varð annað árið í röð þrefaldur Íslandsmeistari í kvennaflokki í sumar auk þess sem hún varð tvöfaldur Íslandsmeistari innanhúss. Árangur hennar í 400m grindahlaupi á Meistaramóti Íslands gaf næstflest afreksstig, eingöngu árangur Ásdísar Hjálmsdóttur Ólympíufara gaf fleiri afreksstig. Fjóla Signý var mjög mikilvægur burðarás HSK liðsins í Bikarkeppni FRÍ 1.deild þar sem hún varð tvöfaldur Bikarmeistari og stigahæsti kvenkeppandi mótsins. Hún krækti sér einnig í einn Bikarmeistaratitil innanhúss, segir í tilkynningunni ennfremur.
 
Fjóla Signý setti 10 HSK met á árinu í fullorðinsflokki og er hún handhafi HSK meta utanhúss í 200m hlaupi, 100m grindahlaupi og 400m grindahlaupi. Innanhúss á Fjóla Signý HSK metin í 60m grind og 200m ,400m og 600m hlaupum. Hæst bar þegar hún tvíbætti 30 ára gamalt HSK met í 200m hlaupi utanhúss. Hún bætti sinn besta árangur í 12 greinum utanhúss og 8 greinum innnanhúss. Fjóla Signý hefur sýnt ótrúlegar framfarir og árangur hennar og bætingar langt fram úr öllum áætlunum. Á afrekslista sumarsins hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands er hún með besta árangur ársins í 400m og 100m grindahlaupum og næstbesta árangur ársins í 800m hlaupi og hástökki.
 
Fjóla Signý hefur verið valin í A-landsliðshóp Íslands fyrir árið 2013 og er meginmarkmið hennar að komast á Ólympíuleikana í Brazilíu 2016 en til þess þarf hún að bæta sinn besta árangur í 400m grindahlaupi um aðeins 3 sekúndur. Fjóla Signý hefur alla tíð verið góð fyrirmynd yngri kynslóðarinnar í frjálsíþróttum og verið mjög góður félagi félaga sinna og leggur sig fram af alefli í öll þau verkefni sem henni eru fengin.
 
Frétt um kjör Fjólu Signýjar má sjá hér á heimasíðu Sunnlenska
 
 

FRÍ Author