Fjögur á topp hundrað lista árins í heiminum

Fjórir íslenskir frjálsíþróttamenn eru á lista yfir hundrað bestu í sinni grein í heiminum á þessu ári.
 
Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari úr Ármanni er í 36. sæti á heimslistanum með Íslandsmet sitt 59,80 metra. Árangur Ásdísar er annar besti árangur á Norðurlöndum, aðeins Mikaela Ingberg frá Finnlandi kastaði lengra en Ásdís á þessu ári, en hún er í 22. sæti heimslistans með 61,59 metra.
 
Bergur Ingi Pétursson sleggjukastari úr FH er í 61. sæti heimslistans með Íslandsmet sitt 74,48 metra. Árangur Bergs Inga er sá þriðji besti á Norðurlöndum í ár, Finninn Ole-Pekka Karjalainen er í 18. sæti listans með 79,59 metra og David Söderberg einnig frá Finnlandi kastaði 75,82 metra í ár og er hann í 49. sæti heimslistans.
 
Þórey Edda Elísdóttir stangarstökkvari úr FH er í 65.-78. sæti heimslistans með 4,30 metra. Finnska stúlkan Vanessa Vandy er með besta árangur á Norðurlöndum á þessu ári, stökk yfir 4,31 metra og önnur finnsk og ein norsk stúlka stukku sömu hæð og Þórey Edda á þessu ári, þannig að árangur Þóreyjar er 2-4. besti á Norðurlöndum í ár. Þórey Edda er handhafi Norðurlandametsins í greininni, en metið er 4,60 metrar frá árinu 2004.
 
Óðinn Björn Þorsteinsson kúluvarpari úr FH er í 97. sæti listans með 19,20 metra.
Þetta er fimmti besti árangur á Norðurlöndum í ár, þrír Finnar og Daninn Joachim Olsen vörpuðu kúlunni lengra en Óðinn á þessu ári. Finninn Robert Häggblom er með besta árangur á Norðurlöndum, en hann varpaði kúlunni 20,06 metra á árinu.
 
Sjá nánar "Statistic og Toplist" á heimasíðu IAAF

FRÍ Author