Fimm íslenskar stúlkur í topp tíu í Evrópu

Það hafa líklegast flestir tekið eftir þeim frábæra árangri sem íslensk frjálsíþróttaungmenni hafa náð á síðasta ári og það sem af er þessu ári. Alþjóðlegir titlar ungmenna, Íslandsmeistaratitlar og Íslandsmet í fullorðinsflokki hafa fallið í skaut krakka sem enn eru gjaldgeng í flokki unglinga.

Ef Evrópulistar eru skoðaðir þá má sjá að fimm íslenskir stúlkur eru á meðal tíu efstu í sínum aldursflokk. Íslendingar geta því sannarlega státað sig af ungmennum sem eru á meðal þeirra bestu í Evrópu.

Efst er Elísabet Rut Rúnarsdóttir sem er önnur á Evrópulistanum í sleggjukasti stúlkna yngri en 18 ára. Þegar árangur með 4 kg kvennasleggju er skoðaður þá er hún efst. Þar er árangur hennar 62,16 metrar sem er Íslandsmetið í greininni. Næst er Erna Sóley Gunnarsdóttir sem er þriðja á lista í kúluvarpi yngri en 20 ára. Lengsta kast hennar er 16,13 metrar og er það aldursflokkamet 18-19 ára og 20-22 ára.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er með Íslandsmeti sínu í 200 metra hlaupi, 23,45 sekúndur, í fjórða sæti Evrópulistans yngri en 20 ára. Fyrir Íslandsmet sitt í 100 metra hlaupi er hún í fimmta sæti. Íslandsmet hennar í þeirri grein er 11,56 sekúndur. Birna Kristín Kristjánsdóttir bætti um helgina eigið aldursflokkamet í langstökki 16-17 ára þegar hún stökk 6,12 metra. Það er sjöundi besti árangur fyrir stúlkur yngri en 18 ára í Evrópu það sem af er ári.

Tiana Ósk Whitworth, sem um helgina bætti 15 ára gamalt Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur áður en að Guðbjörg Jóna bætti það stuttu seinna, er í áttunda sæti yngri en 20 ára fyrir árangur sinn í 100 metra hlaupi. Tími hennar er 11,57 sekúndur, aðeins 1/100 úr sekúndu lakari en tími Guðbjargar. Í 200 metra hlaupi á Tiana best 23,79 sekúndur sem er tólfti besti árangur stúlku yngri en 20 ára í Evrópu.

Þar að auki er Valdimar Hjalti Erlendsson ansi nálægt því að komast á topp tíu listann í kringlukasti yngri en 20 ára. Hann á best 57,54 metra sem gerir hann að sextánda besta kringlukastara Evrópu á þessu ári í sínum aldursflokk.

Það er margt sem spilar inn í þegar ástæður fyrir framúrskarandi árangri eru skoðaðar. Það sem skiptir mestu máli er að hið unga og efnilega íþróttafólk sem býr yfir miklum hæfileikum sé tilbúið til þess að leggja á sig mikla vinnu til þess að skara fram úr. Fjölmargir klukkutímar í hverri einustu viku hjá þessum krökkum fara í þrotlausar æfingar og sjálfsagi og heilbrigður lífsstíll utan æfinga er ekki síður mikilvægur. Það sem skiptir einnig miklu máli er að íþróttafólkið okkar fái góða umgjörð til þess að stunda sína íþrótt. Góð aðstaða til iðkunnar og fagleg þjálfun skiptir þar miklu máli. Þar eiga íþróttafélögin, Frjálsíþróttasamband Íslands og íslenska ríkið skilið klapp á bakið. Íþróttafélögin hafa innan sinna raða frábæra þjálfara sem leiðbeina ungu íþróttafólki, Frjálsíþróttasambandið hefur búið til faglega umgjörð fyrir íþróttina hér á landi og styrkveitingar ríkisins gera íþróttafólkinu kleift að einbeita sér betur að íþróttinni sinni. Aðeins örfáir enda í heimsklassa í sinni íþrótt en með því að halda uppteknum hætti og skapa góða umgjörð fyrir íþróttina gæti fámenna þjóðin Ísland státað sig af góðum hópi heimsklassa íþróttafólks.