Evrópuþing og Golden Tracks 2021

Dagana 14.-16. október fór fram þing og ráðstefna Frjálsíþróttasambands Evrópu í Lausanne, Sviss. Þessir dagar fóru meðal annrs í vinnustofur, fundi og fræðslu.

Einn dagur er í sjálft þingið og þar var kosið, m.a. til forseta (President) og varaforseta (Vice-President. Dobromir Karamarinov frá Búlgaríu var kosinn forseti en hann tók einmitt við af Svein Arne Hansen, okkar norska vini sem því miður féll frá á síðasta ári. Jean Gracia fá Frakklandi var kosinn varaforseti EAA og er þá ein þriggja en að þessu sinni var aðeins kosið um eitt laust sæti. Ísland er með eitt atkvæði af 51 sem er mjög stórt vægi sé miðað við höfðatölu. Guðmundur Karlsson framkvæmdastjóri var fulltrúi FRÍ að þessu sinni.

Síðasta kvöldið var svo Golden Tracks þar sem Norðmaðurinn Karsten Warholm og Hollendingurinn Sifan Hassan voru valin frjálsíþróttamaður og kona Evrópu. 

Þau náðu bæði stórkostlegum árangri á Ólympíuleikunum í Tokyo sem fram fór í sumar en Evrópa vann tuttugu gullverðlaun á leikunum.

Warholm stórbætti eigið heimsmet í 400 metra grindahlaupi á leikunum og kom í mark á tímanum 45,94 sek. Gamla heimsmetið setti hann fyrr í sumar og var það 46,70 sekúndur. Þetta er í þriðja sinn sem hann er valinn frjálsíþróttamaður Evrópu.

Hassan vann til þrennra verðlauna á leikunum og fékk hún gull í bæði 5000 metra og 10.000 metra hlaupi. Þetta er í fyrsta skiptið sem hún verður valin frjálaíþróttakona Evrópu. 

Femke Bol var valin rising star en hún hefur meðal annars keppt á Reykjavík International Games í 400 metra hlaupi. Hún vann til bronsverðlauna í 400 metra grindahlaupi á Ólympíuleikunum í ár og sigraði ellefu af tólf hlaupum í greininni. Það var Frakkinn Sasha Zhoya sem var valinn rising star í karlaflokki en hann setti heimsmet unglinga í 110 metra grindahlaupi þegar hann varð heimsmeistari unglinga í sumar.