Glæsilegt íslandsmet hjá Ásdísi í Lapinlahti, 59,80 metrar

Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni setti í dag glæsilegt íslandsmet í spjótkasti á Savo Games í Lapinlahti í Finnlandi.
Ásdís kastaði 59,80 metra og bætti eigið íslandsmet um 2,31 metra, en það var 57,49 metrar, sett í Tallinn 21. júní sl. Ásdís sigraði örugglega á mótinu í dag, en þær sem voru í öðru og þriðja sæti áttu báðar betri árangru en hún fyrir mótið, en Kirsi Ahonen Finnlandi varð í öðru sæti með 56,37 metra (á best 58,70m í ár) og Jelena Jaakkola einnig frá Finnlandi varð í 3. sæti með 55,06 metra (á best 58,89m í ár).
 
Ásdís sem var í 61. sæti heimslistans í spjótkasti hækkaði sig um hvorki meira né minna en 28. sæti og er sem stendur í 33. sæti. Ásdís náði þessu langa kasti í 2. umferð, en hún kastaði tæpa 50 metra í fyrsta kasti, en gerði síðan síðustu fjögur köst sín ógild. Þetta er annar besti árangur í spjótkasti kvenna á Norðurlöndum á þessu ári, aðeins hin Finnska Mikaela Ingberg hefur kastað lengra í ár eða 61,59 metra.
Þetta er fjórða mótið í sumar, sem Ásdís kastar yfir B-lágmarki fyrir Ólympíuleikana. Næsta mót hjá Ásdísi er Meistaramót Íslands á Laugardalsvellinum um næstu helgi, sem verður líklega síðasta mótið sem hún tekur þátt í áður en hún fer til Peking.
 
Frjálsíþróttasambandið óskar Ásdísi, félagi hennar og þjálfara, Stefáni Jóhannssyni til hamingju þennan frábæra árangur.
 
 
 
meira...

Kristbjörg Helga alveg við íslandsmetið í sleggjukasti

Kristbjörg Helga Ingvarsdóttir FH bætti sinn besta árangur um 2 sm í sleggjukasti á 12. Coca Coca móti FH í Kaplakrika sl. föstudag, þegar hún kastaði 49,82 metra. Þetta er aðeins 15 sm frá íslandsmeti Söndru Pétursdóttur ÍR, sem er 49,97 metrar frá 3. júlí sl. Á sama móti kastaði Óðinn Björn Þorsteinsson FH kringlunni 56,04 metra.
meira...

Fjórða Gullmótið fer fram í París í kvöld, sýnt á RUV kl. 23:45

Fjórða Gullmót IAAF fer fram á Saint-Denis leikvanginum í París í kvöld. Nú eru aðeins tvær íþróttakonur eftir í keppninni um milljón dala gullpottinn, þær Blanka Vlasic frá Króatíu í hástökki og Pamela Jelimo frá Keníu í 800m hlaupi.
 
Á síðasta móti í Róm náðu þau Bernshawn Jackson (400gr), Hussein Al-Sabee (langstökk) og Josephine Onyia (100gr) ekki að sigra í sínum greinum. Þau eiga þó ennþá möguleika á sárabót eða hlut í hálfri milljón dollara gullpotti, nái þau að sigra á mótinu í kvöld og síðan á tveimur síðustu mótunum í Zürich (29. ágúst) og Brussel (5. sept.) og þeim Vlasic og Jelimo fatist flugið í kvöld eða seinustu mótunum.
 
Það er þó fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að Blanka Vlasic tryggi sér hlut í pottinum, enda hefur hún mikla yfirburði í hástökki kvenna um þessar mundir. Það kæmi hinsvegar mjög á óvart ef hin 18 ára gamla Jelimo næði að tryggja sér sigur á öllum mótunum, þrátt fyrir fádæma yfirburði í Róm um síðustu helgi.
Í kvöld mætir engin önnur en Maria Mutola í 800m hlaupið og verður gaman að sjá hvort unglingurinn Jelimo beri einhverja virðingu fyrir þessari miklu hlaupakonu frá Mósambik, eða taki bara strax á rás og leiði hlaupið frá upphafi til enda eins og í Róm?
 
Gullmótið verður sýnt kl. 23:45 á RUV í kvöld.
Sjá nánari upplýsingar s.s. keppendalista og fl. á www.iaaf.org
meira...

82. Meistaramót Íslands 26.-27. júlí – Nýtt fyrirkomulag í stigakeppni

Um aðra helgi fer 82. Meistaramót Íslands fram á Laugardalsvelli í umsjón frjálsíþróttadeildar Ármanns.
Nokkuð rótækar breytingar voru gerðar í sambandi við stigakeppni milli félaga um Íslandsmeistaratitil félagsliða á þingi FRÍ í vor. Síðastliðin ár hefur stigakeppnin farið þannig fram að sex efstu í hverri grein hafa reiknast til stiga þannig að fyrsta sæti gaf 6. stig, 2. sæti gaf 5. stig o.s.frv. niður í 1. stig fyrir 6. sæti.
 
Núverandi fyrirkomulag er þannig að fyrstu sex sæti í hverri grein reiknast til stiga m.v. árangur skv. stigatöflu IAAF.
Ef viðkomandi nær ekki 600 stigum skv. stigatöflunni, þá reiknast engin stig. Keppt verður um Íslandsmeistaratitil félagsliða í karla- og kvennflokki og í samanlagðri stigakeppni beggja kynja. Þá var einnig samþykkt á þinginu í vor að veita sérstök verðlaun fyrir besta árangur í einstakri keppnisgrein skv. sömu töflu, bæði í karla- og kvennaflokki.
 
Búið er að opna fyrir skráningu í mótið í mótaforritinu hér á síðunni, en skráningarfrestur er til nk. þriðjudags.
Nánari upplýsingar um 82. Meistaramót Íslands eru að finna undir mótaskrá hér á síðunni m.a. er þar að finna töflu með þeim árangri sem þarf að ná til að ná 600 stigum í öllum keppnisgreinum, en keppt er í 19 keppnisgreinum karla og 18 í kvennaflokki.
Meira
meira...

Unglingametið í 1000m boðhl. féll í Bikarkeppni FRÍ

Nú er komið á daginn að eitt aldursflokkamet fékk í 43. Bikarkeppni FRÍ á dögunum, en það var sveit ÍR sem bætti 55 ára gamalt unglingamet (19-20 ára) í 1000m boðhlaupi. Sveit ÍR skipuðu þrír 18 ára drengir og einn 19 ára, en þetta voru þeir Heimir Þórisson, Brynjar Gunnarsson, Börkur Smári Kristinsson og Einar Daði Lárusson.
Sveitin kom í mark í 3. sæti á 2:00,11 mín og bætti þar með met sveitar Ármanns frá árinu 1953, en þá sveit skipuðu engu minni kappar en Þorvaldur Búason, Hilmar Þorbjörnsson, Þórir Þorsteinsson og Heiðar Jónsson.
 
Elsta met sem ennþá stendur í metaskrá Frjálsíþróttasambandsins er frá árinu 1950 og einnig í 1000m boðhlaupi, en þá hljóp landssveit Íslands á 1:55,0 mín á Bislet leikvanginum í Osló. Þá sveit skipuðu þeir Finnbjörn Þorvaldsson, Haukur Clausen, Ásmundur Bjarnason og Guðmundur Lárusson. Þessir kappar voru þá á heimleið eftir frægðarför á Evrópumeistaramótið í Brussel, sem fram fór skömmu áður. Örn Clausen var ekki í þessari sveit vegna þess að hann hljóp með blandaðri sveit hlauparar frá ýmsum löndum, en sú sveit setti óstaðfest heimsmet í þessu sama hlaupi.
 
Síðustu áratugi hefur aðeins verið keppt í þessari skemmtilegu boðhlaupsgrein í Bikarkeppni FRÍ og á Landsmótum UMFÍ. Í landskeppnum og á stórmótum er alltaf keppt í 4x100m og 4x400m boðhlaupum.
meira...

Þórey Edda stökk 4,19 metra í Rethymno 5

Þórey Edda Elísdóttir stangarstökkvari stökk yfir 4.19 metra og varð í 8. sæti á alþjóðlegu frjálsíþróttamóti í Rethymno á Grikklandi í gærkvöld. Lacy Janson frá Bandaríkjunum sigraði í stangarstökkinu og stökk 4.51 metra.
 
Yargelis Savigne frá Kúbu sigraði í þrístökki kvenna og stökk 15.20 metra, sem er lengsta stökk ársins. Virglijious Alekna frá Litháen Ólympíumeistari í kringluskasti bar sigurorð af heimsmeistaranum Gert Kanter frá Eistlandi. Alekna kastaði kringlunni 70.86 metra, en Kanter 68.73 metra.
 
Fréttin er af www.ruv.is
 
meira...

Óðinn Björn kastaði 59,11m í kringlukasti

Óðinn Björn Þorsteinsson FH bætti sinn besta árangur í kringlukasti á 9. Coca Cola móti FH í Kaplakrika á laugardaginn, þegar hann kastaði 59,11 metra, en hann átti best 57,88 metra frá árinu 2005. Óðinn hefur átt í vandamálum með að varpa kúlu vegna meiðsla í fingri og hefur því verið að kasta kringlu að undanförnu með góðum árangri. Þetta er sjötti besti árangur íslensks kringukastara frá upphafi.
Jón Bjarni Bragason Breiðabliki varð í öðru sæti í keppninni, kastaði 46,82 metra og Örn Davíðsson FH í þriðja sæti með 44,77 metra, sem er hans besti árangur í greininni.
meira...

Metabætingar í stangarstökki á Laugum, Bjarki stökk 4,68m

Góður árangur náðist í stangarstökki á Júlímóti HSÞ á Laugum sl. föstudag og féllu metin í fjórum aldursflokkum unglinga í stangarstökki. Bjarki Gíslason UFA bætti eigin árangur og met í þremur aldursflokkum unglinga þegar hann vippaði sér yfir 4,68 metra, en gamla metið hans var 4,64 metrar, sett í Gautaborg fyrir hálfum mánuði.
Þetta er því nýtt íslandsmet í drengjaflokki 17-18 ára, unglingaflokki 19-20 ára og ungkarlaflokki 21-22 ára, en Bjarki verður 18 ára á þessu ári. Þetta er fimmti besti árangur íslensks stangarstökkvara frá upphafi, en í fjórða sætinu situr þjálfari Bjarka, Gísli Sigurðsson með 4,80 metra og er ekki ólíklegt að það sé næsta markmið Bjarka að stökkva hærra en þjálfarinn gerði á sínum tíma, eða fyrir réttum 23 árum.
 
Þá bætti Gísli Brynjarsson Breiðabliki eigið íslandsmet í flokki sveina 15-16 ára um 2 sm, þegar hann stökk yfir 3,92 metra, en gamla metið setti hann á MÍ í fjölþrautum í maí.
 
Þá stökk Gauti Ásbjörnsson UMSS 4,48 metra, Guðjón Ólafsson Breiðabliki stökk 4,20 metra og Þorsteinn Ingvarsson HSÞ stökk 4,06 metra.
 
Heildarúrslit frá Júlímóti HSÞ eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni.
 
meira...

Helga Margrét í 12. sæti fyrir síðustu grein

Helga var nokkuð frá sínu besta bæði í langstökki og spjótkasti og átti bara tvö gild köst í spjótkastinu. Spurningin er hvað Helga gerir í 800 m. hlaupinu sem er síðasta greinin. Hún á góða möguleika á því að komast upp um nokkur sæti þar sem hún er góð í þessari grein miðað við keppinautana. Helga þarf að hlaupa mjög gott 800 m. hlaup til þess að eiga möguleika á því að bæta Íslandsmetið sitt í greininni – en ekki er hægt að útiloka það ennþá. Til þess að jafna Íslandsmetið þarf hún að fá 867 stig fyrir 800 m. hlaupið. Hún hljóp á 2:19,08 (836 stig) í Prag – en á betri tíma eða: 2:16,54 frá Evrópumeistaramóti 19 ára og yngri Hengelo sl. sumar og 2:17,72 frá því á NM í Finnlandi í júní.
 
meira...

Helga Margrét í 7. sæti í sjöþrautinni á HM 19 ára og yngri með 5516 stig

Að verða í 7. sæti sem er alveg frábær árangur þar sem Helga Margrét er tveimur árum yngri en flestir keppinautarnir. Helga getur keppt aftur á þessu móti eftir 2 ár og verður þá 19 ára.
 
Það vekur athygli að Carolin Schäfer sem sigraði keppnina, með PB 5833 stigum – er jafgömul Helgu, en þær eru báðar á 17. ári – og verða ekki 17 ára fyrr en í lok ársins. Sannarlega efnilegar stúlkur þar á ferðinni.
 
 
meira...
1 252 253 254 255 256 271
X
X