82. Meistaramót Íslands – Undankeppni í fimm greinum

Verið er að vinna í uppsetningu leikskrár í mótaforritinu, en ljóst er að undankeppni mun fara fram í fimm keppnisgreinum eða 100m hlaupi karla og kvenna, 200m hlaupi karla og kvenna og langstökki kvenna.
Undanrásir í 100m hlaupi kvenna verða kl. 12:00 á laugardaginn (3 riðlar) og kl. 12:20 í 100m hlaupi karla
(4 riðlar). Undankeppni í langstökki kvenna verða kl. 12.30 (20 keppendur).
Á sunnudaginn fara svo fram undanrásir í 200m hlaupi kvenna kl. 12:00 (3 riðlar) og kl. 12:20 í 200m hlaupi karla
(3 riðlar).
 
Hægt er að skoða keppendalista og keppendur í greinum í mótaforritinu hér á síðunni, en ennþá er eftir að raða í riðla og stökk/kaströð og setja endanlegan tímaseðill upp, en það á vera komið inn seinna í dag.
meira...

Falla metin á 82. Meistaramóti Íslands um helgina?

82. Meistaramót Íslands fer fram um helgina á Laugardalsvellinum og mun flest besta frjálsíþróttafólk landsins keppa á mótinu um helgina. Þó er ljóst að ólympíufararnir þær Ásdís Hjálmsdóttir og Þórey Edda Elísdóttir geta ekki keppt, þar sem þær eru að ná sé af meiðslum. Þá er spretthlauparinn Ragnar Frosti Frostason UMSS meiddur og Einar Daði Lárusson ÍR verður ekki með.
meira...

Óðinn Björn kastaði yfir 60m og Aðalheiður 12 sm frá íslandsmeti

Óðinn Björn Þorsteinsson FH bætti sinn besta árangur í kringlukasti í gær, þegar hann kastaði 60,29 metra á 14. Coca Cola móti FH í Kaplakrika. Óðinn átti best 59,11 metra frá því fyrir skömmu. Óðinn er í 6. sæti á "all time" listanum frá upphafi, en hann þarf að bæta sig um 2,81 m til að komast hærra á þeim lista, en í 5. sæti listans er Magnús Aron Hallgrímsson með 63,09 metra. B-lágmarkið fyrir Ólympíuleikana er 62,50 metrar, en í gær var síðasti dagur til að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Peking í frjálsum. Það er því ljóst að þrír frjálsíþróttamenn munu keppa á Ólympíuleikunum að þessu sinni eða Ásdís Hjálmsdóttir, Bergur Ingi Pétursson og Þórey Edda Elísdóttir.
 
Annar í kringlukastinu var Örn Davíðsson FH kastaði 45,86 metra, sem er rúmlega einum metra lengra en hann hefur áður kastað. Þriðji varð svo Stefán Ragnar Jónsson Breiðabliki með 44,37 metra, sem er hans besti árangur í ár.
 
Þá var einnig keppt í sleggjukasti kvenna og þar sigraði Aðalheiður María Vigfúsdóttir Breiðabliki, kastaði 49,85 metra, sem er aðeins 12 sm frá íslandsmeti Söndru Pétursdóttur ÍR. Þetta er besti árangur Aðalheiðar, en hún átti íslandsmetið, 49,69 metra áður en Sandra bætti það í sl. mánuði. Þetta er jafnframt annar besti árangur í sleggjukasti kvenna frá upphafi, en Kristbjörg Helga Ingvarsdóttir FH á 49,82 metra og fór Aðalheiður því upp fyrir hana á "all time" listanum með þessu kasti. Kristbjörg Helga kastaði hinsvegar lengst 48,05 metra í gær.
meira...

82. Meistaramót Íslands um helgina – síðasti skráningardagur í dag

Í dag er síðasti dagur til að skrá keppendur í mótaforrit FRÍ hér á síðunni. Lokað verður fyrir skráningar um miðnætti í kvöld. Eftir það er þó möguleiki á eftir á skráningum til kl. 11:00 á föstudaginn gegn þreföldu skráningargjaldi. Allar upplýsingar um Meistaramótið eru að finna undir mótaskrá hér á síðunni.
meira...

Góð þátttaka á 82. Meistaramóti Íslands og allir bestu keppa

Nú er lokið forskráningu á 82. Meistaramót Íslands sem fram fer á Laugardalsvelli um helgina.
Mjög góð þátttaka er á mótinu, en um 180 keppendur frá 15 félögum og samböndum eru skráðir til leiks.
Flestir keppendur eru skráðir frá ÍR eða 51, 41 frá FH og 27 frá Breiðabliki, en þessi þrjú félög eru með langflesta keppendur á mótinu.
 
Allt besta frjálsíþróttafólk landsins er skráð á mótið m.a. Ólympíufararnir þrír þau Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni,
Bergur Ingi Pétursson FH og Þórey Edda Elísdóttir FH, en þetta er síðasta stóra mótið sem þau keppa á áður en þau halda til Japans í æfingabúðir fyrir Ólympíuleikana þann 4. ágúst nk.
 
Þeir sjö íþróttamenn sem bætt hafa samtals 13 íslandsmet utanhúss á árinu verða allir með á Meistaramótinu,
en þetta eru:
Karlar:
* Bergur Ingi Pétursson FH, en hann er búinn að bæta metið í sleggjukasti þrívegis á árinu.
* Björgvin Víkingsson FH, en hann bætti metið í 400m grindahlaupi í síðasta mánuði.
* Kári Steinn Karlsson Breiðabli, en hann bætti metin í 5000m og 10.000m í vor.
Konur:
* Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni, en hún hefur tvíbætt metið í spjótkasti, nú síðast um sl. helgi.
* Helga Margrét Þorsteinsdóttir Ármanni, en hún bætti metið í sjöþraut í júní.
* Íris Anna Skúladóttir Fjölni, en hún tvíbætti metið í 3000m hindrunarhlaupi í júní.
* Sandra Pétursdóttir ÍR, en hún tvíbætti metið í sleggjukasti kvenna á sama móti í júní.
 
Meistaramót Íslands er fyrst og fremst einstaklingskeppni og verður keppt um Íslandsmeistaratitla í 19 keppnisgreinum karla og 18 keppnisgreinum kvenna á mótinu. Þá er einnig keppt um Íslandsmeistaratitil félagsliða á mótinu, bæði í karla- og kvennaflokki, sem og í heildarstigakeppni beggja kynja.
Keppt verður eftir nýju fyrirkomulagi í stigakeppni um Íslandsmeistaratitil félagsliða, en stigakeppnin fer þannig
fram að fyrstu sex sæti í hverri grein gefa stig m.v. árangur skv. stigatöflu IAAF. Keppendur í efstu sex sætum
þurfa að ná lágmarksárangri eða 600 stigum til að þeir reiknist til stiga í stigakeppninni fyrir sitt félag.
Með þessu móti skiptir ekki bara röð efstu keppenda máli, heldur ekki síður hvaða árangri þeir ná.
 
Fjölmennustu keppnisgreinar karla eru: 100m hl.(31), 200m hl.(21) og 400m hl.(20).
Fjölmennustu kepnnisgreinar kvenna eru: 100m hl. (22), langstökk (18) og 400m hl.(16).
 
Nú þegar skráningu er lokið verður unnið í uppsetningu mótins og á leikskrá að vera tilbúin á morgun.
Aðalhluti mótins hefst kl. 12:00 á laugardaginn og kl. 14:00 á sunnudaginn á Laugardalsvelli.
meira...

Hafdís stökk yfir 6 metra á Sumarleikum HSÞ

164 keppendur frá 15 félögum tóku þátt í Sumarleikum HSÞ sem fram fóru á Laugum um helgina.
Ágætur árangur náðist á mótinu m.a. stökk Hafdís Sigurðardóttir HSÞ 6,02 metra í langstökki, en meðvindur var of mikill til að árangurinn fáist staðfestur eða 3,8 m/s. Þá stökk Þorsteinn Ingvarsson HSÞ 7,00 metra í langstökki og Berglind Kristjánsdóttir HSÞ stökk yfir 1,65 metra í hástökki.
 
Heildarúrslit frá mótinu eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni.
meira...

Glæsilegt íslandsmet hjá Ásdísi í Lapinlahti, 59,80 metrar

Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni setti í dag glæsilegt íslandsmet í spjótkasti á Savo Games í Lapinlahti í Finnlandi.
Ásdís kastaði 59,80 metra og bætti eigið íslandsmet um 2,31 metra, en það var 57,49 metrar, sett í Tallinn 21. júní sl. Ásdís sigraði örugglega á mótinu í dag, en þær sem voru í öðru og þriðja sæti áttu báðar betri árangru en hún fyrir mótið, en Kirsi Ahonen Finnlandi varð í öðru sæti með 56,37 metra (á best 58,70m í ár) og Jelena Jaakkola einnig frá Finnlandi varð í 3. sæti með 55,06 metra (á best 58,89m í ár).
 
Ásdís sem var í 61. sæti heimslistans í spjótkasti hækkaði sig um hvorki meira né minna en 28. sæti og er sem stendur í 33. sæti. Ásdís náði þessu langa kasti í 2. umferð, en hún kastaði tæpa 50 metra í fyrsta kasti, en gerði síðan síðustu fjögur köst sín ógild. Þetta er annar besti árangur í spjótkasti kvenna á Norðurlöndum á þessu ári, aðeins hin Finnska Mikaela Ingberg hefur kastað lengra í ár eða 61,59 metra.
Þetta er fjórða mótið í sumar, sem Ásdís kastar yfir B-lágmarki fyrir Ólympíuleikana. Næsta mót hjá Ásdísi er Meistaramót Íslands á Laugardalsvellinum um næstu helgi, sem verður líklega síðasta mótið sem hún tekur þátt í áður en hún fer til Peking.
 
Frjálsíþróttasambandið óskar Ásdísi, félagi hennar og þjálfara, Stefáni Jóhannssyni til hamingju þennan frábæra árangur.
 
 
 
meira...

Kristbjörg Helga alveg við íslandsmetið í sleggjukasti

Kristbjörg Helga Ingvarsdóttir FH bætti sinn besta árangur um 2 sm í sleggjukasti á 12. Coca Coca móti FH í Kaplakrika sl. föstudag, þegar hún kastaði 49,82 metra. Þetta er aðeins 15 sm frá íslandsmeti Söndru Pétursdóttur ÍR, sem er 49,97 metrar frá 3. júlí sl. Á sama móti kastaði Óðinn Björn Þorsteinsson FH kringlunni 56,04 metra.
meira...

82. Meistaramót Íslands 26.-27. júlí – Nýtt fyrirkomulag í stigakeppni

Um aðra helgi fer 82. Meistaramót Íslands fram á Laugardalsvelli í umsjón frjálsíþróttadeildar Ármanns.
Nokkuð rótækar breytingar voru gerðar í sambandi við stigakeppni milli félaga um Íslandsmeistaratitil félagsliða á þingi FRÍ í vor. Síðastliðin ár hefur stigakeppnin farið þannig fram að sex efstu í hverri grein hafa reiknast til stiga þannig að fyrsta sæti gaf 6. stig, 2. sæti gaf 5. stig o.s.frv. niður í 1. stig fyrir 6. sæti.
 
Núverandi fyrirkomulag er þannig að fyrstu sex sæti í hverri grein reiknast til stiga m.v. árangur skv. stigatöflu IAAF.
Ef viðkomandi nær ekki 600 stigum skv. stigatöflunni, þá reiknast engin stig. Keppt verður um Íslandsmeistaratitil félagsliða í karla- og kvennflokki og í samanlagðri stigakeppni beggja kynja. Þá var einnig samþykkt á þinginu í vor að veita sérstök verðlaun fyrir besta árangur í einstakri keppnisgrein skv. sömu töflu, bæði í karla- og kvennaflokki.
 
Búið er að opna fyrir skráningu í mótið í mótaforritinu hér á síðunni, en skráningarfrestur er til nk. þriðjudags.
Nánari upplýsingar um 82. Meistaramót Íslands eru að finna undir mótaskrá hér á síðunni m.a. er þar að finna töflu með þeim árangri sem þarf að ná til að ná 600 stigum í öllum keppnisgreinum, en keppt er í 19 keppnisgreinum karla og 18 í kvennaflokki.
Meira
meira...

Fjórða Gullmótið fer fram í París í kvöld, sýnt á RUV kl. 23:45

Fjórða Gullmót IAAF fer fram á Saint-Denis leikvanginum í París í kvöld. Nú eru aðeins tvær íþróttakonur eftir í keppninni um milljón dala gullpottinn, þær Blanka Vlasic frá Króatíu í hástökki og Pamela Jelimo frá Keníu í 800m hlaupi.
 
Á síðasta móti í Róm náðu þau Bernshawn Jackson (400gr), Hussein Al-Sabee (langstökk) og Josephine Onyia (100gr) ekki að sigra í sínum greinum. Þau eiga þó ennþá möguleika á sárabót eða hlut í hálfri milljón dollara gullpotti, nái þau að sigra á mótinu í kvöld og síðan á tveimur síðustu mótunum í Zürich (29. ágúst) og Brussel (5. sept.) og þeim Vlasic og Jelimo fatist flugið í kvöld eða seinustu mótunum.
 
Það er þó fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að Blanka Vlasic tryggi sér hlut í pottinum, enda hefur hún mikla yfirburði í hástökki kvenna um þessar mundir. Það kæmi hinsvegar mjög á óvart ef hin 18 ára gamla Jelimo næði að tryggja sér sigur á öllum mótunum, þrátt fyrir fádæma yfirburði í Róm um síðustu helgi.
Í kvöld mætir engin önnur en Maria Mutola í 800m hlaupið og verður gaman að sjá hvort unglingurinn Jelimo beri einhverja virðingu fyrir þessari miklu hlaupakonu frá Mósambik, eða taki bara strax á rás og leiði hlaupið frá upphafi til enda eins og í Róm?
 
Gullmótið verður sýnt kl. 23:45 á RUV í kvöld.
Sjá nánari upplýsingar s.s. keppendalista og fl. á www.iaaf.org
meira...
1 220 221 222 223 224 239
X
X