Trausti Stefánsson með bætingu í 200m

Trausti Stefánsson spretthlaupari úr FH bætti sinn besta árangur í 200m hlaupi á frjálsíþróttamóti í Árósum í gærkvöldi og náði jafnframt besta tíma ársins í greininni, hljóp á 22,06 sek. og sigraði örugglega (-1,7m/s).
 
Hans besti tími fyrir þetta hlaup var 22,12 sek. frá því á Gautaborgarleikunum á þessu ári. Þessi árangur Trausta er jafnframt besti tími ársins í 200m, en hann komst upp fyrir Svein Elías á afrekaskrá ársins, en hann hefur best hlaupið á 22,08 sek. í sumar.
Trausti hljóp einnig 100m á mótinu í gærkvöldi á 11,07 sek.(-0,8m/s), sem er 1/100 úr sek. frá hans besta, en hann á þriðja besta tíma Íslendings í 100m hlaupi á þessu ári, 11,06 sek.. Aðeins Sveinn Elías Elíasson Fjölni (10,79 sek.) og Óli Tómas Freysson FH (10,82 sek.) hafa hlaupið hraðar en Trausti á þessu ári.
 
Trausti keppir aftur annað kvöld á Kaupmannahafnarleikunum, en þá hleypur hann 400m.
Þá keppir Stefán Guðmundsson Breiðabliki einnig á Kaupmannahafnarleikunum í 1500m hlaupi.
 
meira...

Gullmót IAAF í Zürich í kvöld – Útsendingar á RUV á morgun

5. Gullmót IAAF fer fram í Zürich í kvöld, en þáttur um mótið verður sýndur á RUV á morgun kl. 15:00.
Þá verður einnig sýndur 30 mín samantektarþátttur um MÍ 11-14 ára sem fram fór á Laugum 16.-17. ágúst sl. á morgun frá kl. 17:25-17:55.
 
Búast má við mjög góðu móti í Zürich í kvöld, en þangað hafa alls 14 ólympíumeistarar boðað komu sína og fer þar fremstur í flokki Usain Bolt, heimsmethafinn í 100 og 200m hlaupum, en hann keppir í 100m ásamt sex af þeim hlaupurum sem komust í úrslit í Peking. Bolt hefur sagst ætla að reyna að bæta heimsmetið í Zürich, en það er 9,69 sek.
 
Tveir íþróttamenn eru ennþá með í keppninni um 1 milljón dollara gullpottinn, þær Pamela Jelimo í 800m hlaupi og Blanka Vlasic í hástökki, en þær hafa báðar unnið sigur á öllum gullmótum sumarsins til þessa.
Jelimo sigraði einnig örugglega í Peking á nýju heimsmeti unglinga 19 ára og yngri, en hún er aðeins 18 ára.
Vlasic mátti hinsvegar sætta sig við silfurpening í Peking og hefur eflaust ekki verið sátt við silfrið, þó sumir telji það gulli betra. Hún mætir ólympíumeistaranum Tiu Hellbaut frá Belgíu aftur í kvöld, en þær stukku báðar yfir 2,05 metra í Peking.
 
Síðasta Gullmót ársins fer síðan fram um næstu helgi í Brussel. Síðasta stórmót ársins, World Athletics Final fer síðan fram í Stuttgart helgina 13.-14. september nk., en það er hluti af Gullmótaröð IAAF á þessu ári og þurfa þær Jelimo og Vlasic því að vinna þrjá sigrar til viðbótar til að tryggja sér hlutdeild í milljón dala pottinum.
 
Sjá nánar keppendalista og fl. á www.iaaf.org
 
meira...

Sex keppendur valdir á NM 20-22 ára í Tampere

Stjórn FRÍ ákvað á fundi sínum sl. þriðjudag að velja sex keppendur á Norðurlandameistaramót unglinga 20-22 ára, sem fram fer í Tampere í Finnlandi 6.-7. september nk.
 
Eftirfarandi keppendur voru valdir:
* Arndís Ýr Hafþórsdóttir Fjölni í 1500m hl.
* Bjarni Malmquist Jónsson Fjölni í langstökk og þrístökk.
* Hafdís Sigurðardóttir HSÞ í langstökk.
* Óli Tómas Freysson FH í 100 og 200m hl.
* Stefán Guðmundsson Breiðabliki í 3000m hindrunarhl.
* Þorsteinn Ingvarsson HSÞ í langstökk.
 
Fararstjóri og þjálfari í ferðinni verður Fríða Rún Þórðardóttir unglingalandsliðsþjálfari.
 
meira...

MÍ 15-22 ára; ÍR ingar Íslandsmeistarar, Helga Margrét vann átta greinar

Meistaramóti Íslands 15-22 ára lauk á Sauðárkróksvelli í dag, en 146 keppendur frá 18 félögum tóku þátt í mótinu um helgina.
ÍR ingar sigruðu í stigakeppni mótins og eru því Íslandsmeistarar félagsliða 15-22 ára 2008. ÍR hlaut samtals 409 stig, lið FH varð í örðu sæti með 314 stig og UFA varð í þriðja sæti með 222 stig.
ÍR sigraði stigakeppnina í fjórum flokkum af sex eða í meyjaflokki, sveinaflokki, drengjaflokki og ungkvennaflokki. Ármann sigraði í stúlknaflokki og Breiðablik í ungkarlaflokki.
 
Tvö aldursflokkmet féllu á mótinu, Helga Margrét Þorsteinsdóttir Ármanni bætti eigið met í kúluvarpi stúlkna, en hún varpaði 13,21 metra og bætti gamla metið um 34 sm. Þá bætti Örn Davíðsson FH drengjametið í kúluvarpi með 5,5kg kúlu, Örn varpaði 16,96 metra og bætti met Vigfúsar Dan Sigurðssonar sem var 16,71 metrar frá 1999.
Það má segja að maður mótins hafi verið hin fjölhæfa sjöþrautarkona, Helga Margrét Þorsteinsdóttir Ármanni, en hún keppti í níu greinum í stúlknaflokki og sigraði í átta þeirra og varð þriðja í níundu greininni og bætti eitt met í leiðinni. Helga vann eftirfarandi greinar: 100m, 200m, 100mgr, hástökk, langstökk, þrístökk, kúluvarp og kringlukast.
* Sveinbjörg Zophoníasdóttir USÚ varð Íslandsmeistari í fimm greinum í meyjaflokki
(langstökki, þrístökki, spjótkasti, kringlukasti og kúluvarpi).
* Örn Dúi Kristjánsson UFA vann fjórar greinar í sveinaflokki (400m, 100mgr, 300mgr
og þrístökk).
* Örn Davíðsson FH sigraði allar fjórar kastgreinar í drengjaflokki.
* Þosteinn Ingvarsson HSÞ vann fjórar greinar í ungkarlaflokki (langstökk, stöng,
100mgr og kúluvarp.
* Hafdís Sigurðardóttir HSÞ varð þrefaldur íslansmeistari í ungkvennaflokki
(400m, langstökk og þrístökk).
 
Mótið gekk vel, en töluverður vindur gerði keppendum erfitt fyrir í gær eins og sjá má á vindmælingu í spetthlaupum og stökkgreinum í úrslitum mótsins.
 
Heildarúrslit eru að finna á www.mot.fri.is
 
Myndin hér fyrir neðan er af Íslandsmeistaraliði ÍR 15-22 ára 2008 taka við sigurlaunum sínum á Sauðárkróksvelli. (Mynd: Helgi Kristófersson)
meira...

Björg Árnadóttir og Stefán Viðar Sigtryggsson íslandsmeistarar í maraþoni

Þau Björg Árnadóttir og Stefán Viðar Sigtryggsson eru íslandsmeistarar í maraþonhlaupi 2008, en meistaramótið í maraþonhlaupi fór fram í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis í gær.
Stefán hljóp á 2:46,40 klst. og var 6:22 mín á undan Bergþóri Ólafssyni sem varð í öðru sæti á 2:53,02 klst. Í þriðja sæti varð svo Reynir Bjarni Egilsson á 2:57,07 klst.
Björg hljóp á 3:20,11 klst. og kom í mark rúmlega átta mínútum á undan Sigríði Björk Einarsdóttur sem varð í öðru sæti á 3:28,14 klst. Þriðja varð Sigrún Krisín Barkardóttir á 3:32,08 klst.
 
Sigurvegari í maraþonhlaupi karla varð David Kirkland frá Bretlandi, en hann hljóp á 2:32,51 klst. og fyrst kvenna í mark varð Rosalyn Alexander einnig frá Bretlandi á 3:01,01 klst.
 
Í hálfmaraþoni karla sigraði John Muriithi Mwaniki frá Keníu á 1:07,27 klst. og í öðru sæti varð Þorbergur Ingi Jónsson á 1:13,20 klst. Martha Ernstsdóttir sigraði í hálfmaraþoni kvenna á 1:23,19 klst.
Kári Steinn Karlsson vann 10km hlaupið á 31:43 mín og Fríða Rún Þórðardóttir vann sömu vegalengd í kvennaflokki á 38:34 mín.
 
Myndin er að Björgu Árnadóttur koma í mark sem íslandsmeistari í maraþonhlaupi kvenna 2008.
 
Sjá heildarúrslit á www.marathon.is
meira...

MÍ 15-22 ára á Sauðárkróki um helgina

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram á Sauðárkróki í umsjón UMSS um helgina.
147 keppendur frá 18 félögum og héraðssamböndum eru skráðir til leiks á mótinu.
Flestir keppendur komar frá ÍR eða 38, 23 eru skráðir frá FH og 17 frá UFA.
 
Mótið fer fram á laugardaginn frá kl. 13:00-17:40 og á sunnudaginn frá kl. 10:00-15:10.
Keppt er í þremur aldursflokkum beggja kynja, 15-16 ára (meyjar/sveinar), 17-18 ára (stúlkur/drengir) og 19-22 ára (ungkonur/ungkarlar). Mótið er bæði einstaklingskeppni og stigakeppni milli félaga í öllum aldursflokkum, þar sem keppt verður um Íslandsmeistaratitil félagsliða í öllum aldursflokkum og í heildarstigakeppni.
 
Verið er að vinna að uppsetningu leikskrár fyrir mótið og verður hún tilbúin seinna í dag og verður þá hægt að skoða hana í mótaforritinu hér á síðunni, þar sem úrslit verða færð inn um helgina; www.mot.fri.is
 
Sjá nánari upplýsingar um MÍ 15-22 ára undir mótaská hér á síðunni.
meira...

Lærisveinn Vésteins með gull í Peking

„Ég er búinn að vera með þennan dreng í átta ár. Hann varð heimsmeistari í fyrra og Ólympíumeistari núna. Hann er búinn að fara úr 56 metrum í 73 metra á þessum tíma og ég verð nú bara að segja að ég er nokkuð stoltur yfir þessum árangri,“ sagði Vésteinn Hafsteinsson kringlukastþjálfari sem fagnaði gríðarlega þegar lærisveinn hans Gerd Kanter frá Eistlandi sigraði í kringlukastinu á Ólympíuleikunum í Peking.
 
Vésteinn var með íslenska fánann á lofti í áhorfendastúkunni þegar hann fagnaði með sínu fólki en hann leyndi ekki tilfinningum sínum þegar titillinn var í höfn.
 
 
Það vantaði bara að íslenski fáninn yrði dreginn að húni og þjóðsönginn. Þá hefði ég bara farið ennþá meira að grenja. Ég er viss um að öll eistneska þjóðin var að horfa á þessa útsendingu og örugglega hann karl faðir minn á Selfossi einnig,“ sagði Vésteinn en hann hefur hug á því að halda áfram að þjálfa Kanter. „Það hafa þjálfarar verið reknir eftir að hafa landað meistaratitli í fótboltanum á Spáni. Ég býst ekki við að það verði uppi á teningnum hjá okkur. Gerd er 29 ára gamall og hann á enn mörg góð ár í fremstu röð og ég vil fá tækifæri til þess að taka þátt í því,“ sagði Vésteinn.
 
Fréttin er af www.mbl.is
 
Frjálsíþróttasambandið sendir Vésteini Hafsteinssyni fyrrverandi landsliðsþjálfara FRÍ hamingjuóskir með þennan frábæra árangur hans sem þjálfara. Myndin af Vésteini og Gerd er frá Evrópumeistaramótinu í Gautaborg 2006.
meira...

Ásdís keppir í nótt kl. 02:40

Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni keppir í undankeppni spjótkastsins kl. 02:40 í nótt að íslenskum tíma.
Ásdís er í síðasti kasthópi, en alls taka 54 konur þátt í spjótkastkeppni Ólympíuleikana og keppa
27 í hvorum kasthópi, en fyrri hópurinn kastar kl. 01:00.
 
Búið er að gefa út að til þess að tryggja sér sæti í úrslitum þurfi að kasta spjótinu 61,50 metra, en ef færri kasta svo langt, þá fara alltaf 12 bestu í úrslit og má búast við að til þess þurfi að kasta a.m.k. 60 metra.
Ásdís er sjöunda í kaströð, en hún á 21. besta árangur af þeim sem keppa í hennar hópi og 15. besta árangur á þessu ári. Í heildina þá er Ásdís með 41. besta árangur af þeim 54 sem keppa og 31. besta árangur á þessu ári.
Aðeins þrjár konur frá Norðurlöndum taka þátt í spjótkastkeppni kvenna, en auk Ásdísar keppa þær Christina Scherwin frá Danmörku og Mikaela Ingberg frá Finnlandi.
 
Ásdís hefur átt í vandamálum vegna meiðsla á olnboga alveg frá því hún setti íslandsmet sitt 59,80 metra í Lapinlathi í Finnlandi 20. júlí sl. og hefur ekki getað beitt sér í æfingum að undanförnu, en vonandi verður það í lagi í nótt.
 
Sjá nánar: www.iaaf.org
meira...

Ásdís úr leik í Peking

„Ég átti að gera betur en þetta en ég hef ekki kastað spjótinu í fjórar vikur vegna meiðsla og það kom greinilega niður á mér í þessari keppni,“ sagði Ásdís Hjálmsdóttir Íslandsmeistari í spjótkasti en hún kastaði aðeins 48,59 metra í undankeppninni á Ólympíuleikunum í Peking
 
Fyrstu tvö köstin hjá Ásdísi voru mun styttri og gerði hún þau ógild viljandi.Hún er því úr leik en Ásdís endaði í 50. sæti af alls 54 keppendum.
 
Barbora Spotakova frá Tékklandi átti lengsta kastið í undankeppninni, 67,69 m. en 60,13 m kast dugði Sinta Ozalina frá Litháen í 12. Sætið sem tryggði henni sæti í úrslitum. Íslandsmet Ásdísar er 59,80 metrar og er hún staðráðinn í því að láta ekki staðar numið þrátt fyrir slakan árangur á ÓL í Peking.
 
„Tæknin er bara ekki lagi núna og ég missti of mikið úr í undirbúningnum þegar ég meiddist fyrir fjórum vikum í Finnlandi. Þrátt fyrir að læknar íslenska hópsins hafi gert allt til þess að hlúa að þessum meiðslum þá var það ekki nóg. Ég mun fara í frekari rannsóknir þegar ég kem heim til Íslands," sagði Ásdís Hjálmsdóttir.
 
Fréttin er af www.mbl.is
meira...

ÍR ingar eru Íslandsmeistarar félagsliða 11-14 ára 2008 5

Meistaramót Íslands 11-14 ára fór fram á Laugum um helgina og lauk um miðjan dag í dag.
Mótið var í umsjón frjálsíþróttaráðs HSÞ og tóks það mjög vel í alla staða í sól og blíðu báða keppnisdaga, en 197 keppendur tóku þátt í mótinu frá 16 félögum og héraðssamböndum.
ÍR sigraði í heildarstigakeppni mótsins og eru Íslandsmeistarar félagsliða 11-14 ára 2008.
ÍR ingar hlutu samtals 554 stig, lið HSK varð í öðru sæti með 419,8 stig og UFA varð í þriðja sæti með 288 stig. ÍR ingar urðu einnig Íslandsmeistarar félagsliða innanhúss á þessu ári.
 
Myndin er af Íslandsmeistaraliði ÍR 11-14 ára 2008 (Ljm: Svandís Sigvaldadóttir).
 
Íslandsmeistarar félagsliða í einstökum aldursflokkum urðu eftirfarandi félög:
11 ára strákar: HSK
11 ára slelpur: UMSE
12 ára strákar: UMSE
12 ára stelpur: Umf.Selfoss
13 ára pilar: Breiðablik
13 ára telpur: ÍR
14 ára piltar: ÍR
14 ára telpur: ÍR
 
Flesta Íslandsmeistaratitla í einstökum aldursflokkum hlutu eftirfarandi:
 
11 ára flokkur:
* Auður Gauksdóttir HSÞ, sigraði í kúluvarpi og hástökki.
* Elvar Baldvinsson HSÞ, sigraði í langstökki og hástökki.
* María Elva Eyjólfsdóttir Fjölni, sigraði í 60m og 800m.
 
12 ára flokkur:
* Gunnar Ingi Harðarson ÍR, sigraði í 60m, 800m og langstökki.
* Thelma Björk Einarsdóttir Umf.Selfossi, sigraði í hástökki, kúluvarpi og spjótkasti.
 
13 ára flokkur:
* Kolbeinn Höður Gunnarsson UFA, sigraði í 100m, 800m, 80m grind og hástökki.
* Arna Stefanía Guðmundsdóttir ÍR, sigraði í 100m, 800m og 80m grind.
 
14 ára flokkur:
* Andri Már Bragason UFA, sigraði í 100m, 80m grind og langstökki.
* Steinunn Arna Atladóttir FH, sigraði í 100m, 80m grind og langstökki.
 
Heildarúrslit eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni, bæði í einstökum keppnisgreinum og
í stigakeppni félaga; www.mot.fri.is
meira...
1 213 214 215 216 217 236
X
X