Björn hljóp 800m á 1:49,35 mín – Hulda með lágmark á EM 19 ára og yngri

Björn Margreirsson FH náði sínum besta tíma í 800m hlaupi frá upphafi á sterku alþjóðlegu móti í Uden í Hollandi í gær (keienmeeting.com), þegar hann hljóp á 1:49,35 mín og varð í 2. sæti í B-riðli og í áttunda sæti í heildina. Björn átti best 1:49,41 mín frá árinu 2006. Þetta er þriðji besti árangur íslensks hlaupara frá upphafi í þessari grein. Íslandsmet Erlings Jóhannssonar er 1:48,83 mín frá árinu 1987 og annar besti árangurinn er 1:49,2 mín, sem Jón Diðriksson á frá árinu 1982.
 
Hér innanlands náðust einnig mjög góðir árangrar á nokkrum mótum:
* Á innanfélagsmóti Breiðabliks í gær stökk Hulda Þorsteinsdóttir ÍR yfir 3,80 metra og bætti sinn besta árangur um 10 sm og náði um leið lágmarki fyrir EM 19 ára og yngri. Hún er fjórði unglingurinn til að ná lágmarki inn á mótið, en hinir eru; Helga Margrét Þorsteinsdóttir Ármanni (sjöþraut), Einar Daði Lárusson ÍR (tugþraut) og Guðmundur Sverrisson (spjótkast). Þetta er einnig þriðji besti árangur í stangarstökki kvenna frá upphafi, aðeins Þórey Edda (4,60m) og Vala Flosadóttir (4,50m) eiga betri árangur, en Hulda.
* Þá setti Guðmundur Hólmar Jónsson Ármanni persónulegt met í spjótkasti á Coca Cola móti FH í Kaplakrika á föstudaginn og kastaði í fyrsta sinn yfir 70 metra (70,37 metra).
Á sama móti bætti Guðmundur Heiðar Guðmundsson FH (18 ára) sig í langstökki og 100m, en hann hljóp 100m á 11,37 sek.( 1,7) og stökk 6,81 metra í langstökki ( 1,8). Heiður Ósk Eggertsdóttir FH (17 ára) stökk 5,51 metra á sama móti ( 3,6).
 
* 167 keppendur tóku þátt í Sumarleikum HSÞ á Laugum um helgina og þar náði Hafdís Sigurðardóttir HSÞ besta árangri sínum í sumar í langstökki, þegar hún stökk 5,89 metra ( 1,1).
 
Það er ljóst að frjálsíþróttafólkið er að komast í hörkuform fyrir Meistaramót Íslands, sem fram fer í umsjón frjálsíþróttadeildar Breiðabliks á Kópavogsvellinum um næstu helgi.
 
Sjá nánar: http://mot.fri.is

FRÍ Author