Bikarkeppni FRÍ innanhúss

Í dag, laugardaginn 7. mars fer fram 14. Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands í Laugardalshöllinni. Mótið hefst klukkan 11:30 og stendur yfir til 14:00. Alls eru átta lið skráð til keppni í ár, þau eru Breiðablik, FH-A, FH-B, sameiginlegt lið Fjölnis og Aftureldingar, HSK, KFA, ÍR-A og ÍR-B.

FH og ÍR hafa yfirleitt verið efst í harðri baráttu um bikarinn og í fyrra sigraði ÍR með fjórum stigum eftir spennandi keppni. FH-ingar urðu hins vegar Íslandsmeistarar félagsliða fyrir tveimur vikum og teljast því ansi sigurstranglegir á eftir.

Keppnisfyrirkomulag mótsins er með þeim hætti að hvert lið sendir einn keppenda í hverja grein. Átta stig fást fyrir fyrsta sætið, sjö stig fyrir annað sætið og svo koll af kolli. Alls verður keppti í sextán greinum og það lið sem hlýtur flest stig fær svo bikarinn eftirsótta.

Flogið yfir Atlantshafið fyrir bikarinn

Í 60 metra hlaupi karla verður FH-ingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson á meðal keppenda. Kolbeinn er að eiga sitt besta innanhúss tímabil frá upphafi en hann bætti sig nýverið í 60 metra hlaupi þegar hann hljóp á 6,91 sekúndu sem er besti tími Íslendings í ár. Kolbeinn bætti einnig Íslandsmet sitt í 200 metra hlaupi fyrir viku síðan þegar hann kom í mark á 21,21 sekúndu. Bæði hlaupin voru út í Bandaríkjunum þar sem hann keppir fyrir Memphis háskóla og kom hann sérstaklega til Íslands til þess að keppa í dag.

Í kvennaflokki á Andrea Torfadóttir, ÍR, bestan tíma keppenda. Andrea á best 7,68 sekúndur, sem hún hljóp á Meistaramóti Íslands fyrir tveimur vikum. Þar fékk Andrea silfurverðlaun þegar hún kom í mark á sama tíma og Hafdís Sigurðardóttir sem fékk gullið á sjónarmun. Hafdís mun ekki keppa í dag og því telst Andrea ansi sigurstrangleg.

Íslandsmeistarar í 400 metra hlaupi

Í 400 metra hlaupi karla og kvenna mæta til keppni Íslandsmeistararnir frá því á MÍ fyrir tveimur vikum. Það eru FH-ingarnir Kormákur Ari Hafliðason og Þórdís Eva Steinsdóttir. Þar sigruðu þau bæði með yfirburðum og eru bæði líkleg til afreka í dag. Takist FH að sigra tvöfalt í 400 metra hlaupunum gætu það reynst dýrmæt stig í harðri baráttu um bikarinn.

Ólympíufarar í Laugardalnum

Til keppni í dag mæta tveir Ólympíufarar og koma þau bæði úr ÍR. Það er Guðni Valur Guðnason sem keppt hefur á Ólympíuleikunum í kringlukasti og Aníta Hinriksdóttir sem keppt hefur í 800 metra hlaupi. Þau munu hins vegar ekki keppi í sinni helstu grein í dag heldur mun Guðni keppa í kúluvarpi og Aníta í 1500 metra hlaupi. Guðni hefur átt frábært tímabil það sem af er ári og stórbætt sig í kúluvarpi. Það gefur góða forspá fyrir kringlukastið í sumar sem er hans aðalgrein. Aníta Hinriksdóttir hefur ekki keppt á stærstu mótum ársins vegna meiðsla en er nú aftur mætt á brautina. Hún mun freista þess að landa sigrinum og sækja dýrmæt stig fyrir ÍR.

Ráðast úrslitin í boðhlaupinu?

Einn af hápunktum mótsins er oftar en ekki 4×200 metra boðhlaupið sem er síðasta grein dagsins. Fyrir þá grein munar oft ekki miklu milli efstu liða og því gætu úrslitin ráðist þar. Á Íslandsmótinu fyrir tveimur vikum sigraði FH boðhlaupið í karlaflokki og ÍR í kvennaflokki. Bæði lið munu mæta aftur með sitt sterkasta lið og sækjast eftir sigri í boðhlaupinu og mögulega bikarkeppninni sjálfri.

Hér verður hægt að fylgjast með úrslitum og sjá tímaseðil mótsins.

Á vefsíðu Frjálsíþróttasambandsins, fri.is, verður bein textalýsing frá mótinu ásamt myndum.