Bergur Ingi Pétursson keppir í nótt í Peking

Bergur Ingi Pétursson sleggjukastari úr FH keppir í undankeppni sleggjukastsins á Ólympíuleikunum í nótt.
Bergur er í A-hópi, sem hefur keppni kl. 02:40 að íslenskum tíma eða kl. 10:40 í fyrramálið að staðartíma.
Búið er að gefa út að til þess að tryggja sér sæti í úrslitum þurfi að kasta 78,00 metra, ef færri kasta yfir 78 metra þá komast þeir sem eiga 12 lengstu köstin í úrslitakeppnina sem fram fer á sunnudaginn.
 
33 keppendur eru skráðir til leiks í sleggjukastinu, 16 keppa í A-hópi og 17 í B-hópi kl. 04:10 og eiga allir keppendur nema einn betri árangur en Bergur Ingi og 31 hefur kastað lengra á þessu ári. Það er því nokkuð ljóst að möguleikar Bergs á að komast í úrslit eru ekki miklir, en hann sýndi á síðasta móti að hann er í formi og gæti ef allt gengur upp bætt Íslandsmet sitt í greininni, en það er 74,48 metrar frá því í maí sl. Bergur kastaði 73,47 metra sl. sunnudag á móti í Marugame í Japan og átti þá þrjú köst yfir 73 metra.
 
Nánari upplýsingar um keppnina eru að finna á heimasíðu IAAF, en þar eru komnir inn keppendalistar í öllum greinum m.a. spjótkasti og stangarstökki kvenna, en 40 konur eru skráðar í stangarstökkinu á laugardaginn og 56 í spjótkasti kvenna á þriðjudaginn, þar sem þær Þórey Edda og Ásdís Hjálmsdóttir verða á meðal keppenda.
 
Á myndinni hér að ofan er Bergur að óska Þjóðverjanum Markus Esser til hamingu með sigur á móti í Crumbach í Þýskalandi fyrr í sumar, en Markus er eini keppandi Þýskalands í sleggjukastkeppninni á Ólympíuleikunum.
Markus á best 81,10 metra, en hefur kastað lengst 79,97 metra á þessu ári. Hann er í A-hópi eins og Bergur.
 
Sjá nánar: www.iaaf.org

FRÍ Author