Bergur Ingi Pétursson hlýtur styrk frá IAAF – keppir í Split á laugardaginn

Þetta er svokallaður B-styrkur sem þýðir að Bergur fær frítt uppihald og þjálfun hjá bestu sleggjukastþjálfurum í Finnlandi í "High performance Trainingscenter" í Kuortane í Finnlandi í vor og sumar. Þetta er í annað sinn sem Bergur hlýtur styrk frá IAAF, en árið 2006 dvaldi Bergur í hálft ár í æfingamiðstöðinni í Kuortane á vegum IAAF.
 
Þessi styrkur kemur á besta tíma fyrir Berg, en hann stefnir ótrauður á að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikanna í Peking í ágúst, en til þess þarf hann að kasta yfir 74,00 metra. Bergur Ingi bætti Íslandsmet sitt í sl. mánuði þegar hann kastaði 70,52 metra á Vetrarkastmóti Finnlands. Bergur heldur á morgun til Split ásamt þjálfara sínum Eggerti Bogasyni til að keppa á 8. Vetrarkastmóti EAA nk. laugardag. Á mótinu í Split eru 21 keppandi skáðir í sleggjukastið og er Bergur Ingi með 17. besta árangur af þeim sem þar keppa (www.split2008.com).
 
Eftir mótið í Split heldur Bergur svo í æfingabúðir til Portugal ásamt félögum sínum úr FH og um miðjan apríl fer hann svo til móts við Finnska æfingahópinn í æfingabúðir í Portugal í 4. vikur og verður síðan í Kuortane við æfingar fram í lok júní.
 
 
 

FRÍ Author