Snorri Sigurðsson hljóp 800 m á tímanum 1:55,79 og hafnaði hann í fjórða sæti. Aníta hljóp sömu vegalengd á 2:04,60 og sigraði líkt og áður sagði.
Ásdís Hjálmsdóttir kastaði spjótinu 56,15 m og María Rún 46,44 m. Höfnuðu þær í 1. og 3. sæti.
Mark Johnson stökk 4,90 m í stangarstökki og hafnaði í 3.sæti. Var Mark að keppa í fyrsta skipti undir íslensku flaggi og frábært hjá honum að ná í verðlaun á sínu fyrsta móti fyrir Íslands hönd.
Í undanrásum í 400 m hlaupi karla og kvenna tryggðu allir íslensku keppendurnir í greininni sig örugglega áfram í úrlitahlaupið. Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp á tímanum 48,50 s og Ívar Kristinn Jasonarson á 48,54 s. Áttu þeir 2. og 3. besta tímann inn í úrslitin og því greinilega báðir til alls líklegir í úrslitahlaupinu. Aníta Hinriksdóttir tryggði sig áfram í úrslitin á tímanum 55,84 s sem var besti tíminn inn í úrslit, og það stuttu eftir að hafa hlaupið til sigurs í 800 m hlaupinu.
Hafdís Sigurðardóttir stökk 6,06 m í langstökkinu og hafnaði hún í 2.sæti. Var Hafdís einungis 1 cm á eftir sigurvegaranum. Sveinbjörg Zophoníasdóttir stökk 5,80 m og hafnaði í 5.sæti.
Í undanrásum 100 m hlaupsins tryggðu allir íslensku keppendurnir sig í úrslit seinna um daginn. Tímarnir í undanrásunum voru eftirfarandi: Kolbeinn Höður 11,14 s, Trausti Stefánsson 11,16 s, Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir 12,25 s og Hafdís Sigurðardóttir 11,88 s sem er 4.besti tími konu frá upphafi í greininni.
Í úrslitum 100 m hlaupsins hlupu íslensku keppendurnir stórvel og nældu í tvö brons. Kolbeinn Höður stórbætti sinn besta árangur í greininni þegar hann kom í mark á tímanum 10,84 s og nældi í brons. Trausti Stefánsson hljóp á 11,03 og hafnaði í 6.sæti. Hafdís hafnaði í 3.sæti á tímanum 12,00 s og Hrafnhild varð fjórða á tímanum 12,25 s.
Kári Steinn Karlsson hljóp 5.000 m hlaupið á tímanum 14:33,31 s og 2. sæti.
Rannveig Oddsdóttir hljóp sitt fyrsta 10.000 m hlaup á braut og kom hún í mark í 4.sæti á tímanum 37:40,40 s.
Óðinn Björn Þorsteinsson varpaði kúlunni 18,22 m og hafnaði í 2.sæti. Voru þetta hans sjöundu verðlaun á Smáþjóðaleikum.
Annar keppnisdagur frjálsíþróttafólksins verður fimmtudaginn 30. maí og hefst þá keppni kl 14:45 með Maríu Rún Gunnlaugsdóttur og Fjólu Signýju Hannesdóttur í beinum úrslitum í 100 m grindahlaupi.