Ásdís og Bergur keppa á sunnudaginn á Tenerife

Þau Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni og Bergur Ingi Pétursson FH keppa á 9. Vetrarkastmóti Evrópu í Los Realejos á Tenerife á sunnudaginn. Þau eru bæði í B-hópi keppenda í sinni grein og er hann tímasettur kl. 11:30 að staðartíma.
 
21 keppandi er skráður í sleggjukasti karla og er Bergur Ingi með 14 besta árangur keppenda.
Meðal keppenda er Aleksey Zagormyi frá Rússlandi, en hann á besta árangur ársins í heiminum á sl. ár, 80,10 metra. Bergur Ingi keppti á þessu sama móti á sl. ári og stóð sig vel, en hann sigraði í B-hópi og varð í 9. sæti í keppninni, setti nýtt íslandsmet 73,00 metra. Íslandsmet Bergs Inga er 74,48 metrar sett í lok maí á sl. ári.
Sex kastarar sem keppa á sunnudaginn hafa kastað sleggjunni yfir 80 metra á ferlinum.
 
16 konur eru skráðar í spjótkasti kvenna á mótinu og á Ásdís 9. besta árangur keppenda, en íslandsmet hennar frá sl. ári er 59,80 metrar. Ásdís er að keppa í fyrsta sinn á þessu móti.
Meðal keppenda í spjótkastinu er Maruya Abakumova frá Rússlandi, en hún vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking, kastaði þá 70,78 metra, sem er þriðja lengsta kast frá upphafi í spjótkasti kvenna.
Átta af þessum 16 keppendum hafa kastað lengra en 60 metra.
 
Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu mótins: www.losrealejos2009.com

FRÍ Author