Ásdís með gull, Fríða með silfur og Helga með brons

Nú er lokið fyrsta keppnisdegi á frjálsum á Smáþjóðaleikunum á Kýpur. Í síðustu keppnisgreinum dagsins komu þrenn verðlaun í hús. Ásdís Hjálmsdóttir sigraði spjótkastið með yfirburðum, kastaði lengst 58,93 metra og bætti eigið Smáþjóðaleikamet, en það var 57,05m frá árinu 2005. Þá hlaut Helga Margrét Þorsteinsdóttir bronsverðlaun í spjótkastinu og bætti sinn besta árangur um tæplega 5 metra, en hún kastaði lengst 48,56 metra.
 
 
 
Þá vann Fríða Rún Þórðardóttir til silfurverðlauna í 10.000m hlaupi kvenna, hljóp á 37:20,76 mín og var aðeins 11 sek. á eftir fyrstu konu í mark, en Fríða hafi titil að verja frá síðustu leikum. Þá kom Hrafhild Eir Hermóðsdóttir á óvart með því að ná 4. sæti í úrslitum 100m hlaups kvenna, en Hrafnhild kom í mark á 12,39 sek. og bætti sinn besta árangur frá sl. mánuði um 3/100 úr sek. í mótvindi (-0,70m/s).
 
Íslenski frjálsíþróttahópurinn getur verið sáttur við uppskeru dagsins, fimm gullverðlaun, silfur og tvenn bronsverðlauna eða samtals átta verðlaun, þrjú leikjamet og mörg persónuleg met.
 
Annar keppnisdagur í frjálsíþróttum fer fram á fimmtudaginn.
Sjá heildarúrslit á heimasíðu leikana: www.cyprus2009.org.cy

FRÍ Author