Ásdís Hjálmsdóttir komst ekki í úrslitakeppni HM að þessu sinni og stefnan sett á EM í Zurich 2014 – Ásdís hefur þegar öðlast þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu.

Ásdís Hjálmsdóttir kastaði 57,65m í forkeppni HM í Moskvu í morgun og var 2,75m frá því að tryggja sér þátttöku í úrslitakeppni spjótkastsins á sunnudaginn.  Lengsta kast Ásdísar kom í annarri umferð en hennar fyrsta kast mældist 57,36m sem er í raun flott upphafskast og  staðfesting á að gæðatenging gæti verið í spilunum. Annað kastið reyndist lengra hjá Ásdísi og því jákvætt miðað við hefðbundna keppni. Forkeppnin er hins vegar ekki hefðbundin keppni því kastarar fá aðeins þrjú köst í henni en ekki 6 köst eins og eru í boði í venjulegri keppni. Þriðja kastið fór styst og þátttöku Ásdísar á HM lauk þar með að þessu sinni  – næsta HM verður 2015. Ásdís horfir nú m.a.  til Evrópumeistaramótsins í Zurich dagana 12-17 ágúst 2014.  Hún hefur nú þegar öðlast þátttökurétt á EM ásamt Anítu Hinriksdóttur í 800m hlaupi og Guðmundi Sverrissyni í spjótkasti. Útlit er fyrir að fleiri frjálsíþróttamenn eigi eftir að slást í EM hópinn. Og 361 dagur til stefnu  – flott ár í vændum og allir á fullri ferð í frjálsum.

FRÍ Author