Frjálsíþróttakarl ársins er Kári Steinn Karlsson, Breiðabliki, en hann varð í 42.sæti í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum síðastliðið sumar. Hann var einnig í 2.sæti á Norðurlandamótinu í 10 km hlaupi.
Frjálsíþróttakona ársins er Ásdís Hjálmsdóttir.
Besta spretthlaupsafrek ársins á Hafdís Sigurðardóttir, UFA. Hafdís hlýtur 1052 stig samkvæmt stigatöflu IAAF fyrir 24,00 sek í 200 m hlaupi.
Aníta Hinriksdóttir, ÍR hlaut síðan þrenn verðlaun. Hlaut Aníta verðlaun fyrir óvæntasta afrek ársins, mestu framfarir ársins og besta afrek 20 ára og yngri. Aníta hljóp 800 m á tímanum 2:03,15s og setti hún nýtt Íslandsmet í greininni samtals fjórum sinnum á árinu. Á Heimsmeistaramóti 19 ára og yngri hafnaði Aníta í 4.sæti í 800 m hlaupi, einungis 16 ára gömul. Aníta er í 1.sæti á heimslista 17 ára og yngri í 2000 m hindrunarhlaupi á árinu og í 4.sæti á sama lista í 800 m hlaupi. Hún er þó efst allra 16 ára stúlkna.