Ásdís Hjálmsdóttir með nýtt Íslandsmet!

Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir keppti í dag á alþjóðlegu móti í Jonesuu, Finnlandi.

Hún kastaði 63,43 m í fyrsta kasti, sigraði keppnina og bætti um leið tæplega 5 ára gamalt Íslandsmet sitt í greininni.

Fyrra metið setti hún á Ólympíuleikunum í Lundúnum þann 7. ágúst árið 2012 og var það 62,77 m. Var þetta því bæting á Íslandsmetinu um 66 sentímetra.

Með þessu kasti tryggði hún sér um leið þátttökurétt á Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum sem fram fer í Lundúnum í næsta mánuði. Lágmarkið er 61,40 m og kastaði Ásdís því rúmum 2 metrum lengra. Verður þetta fimmta Heimsmeistaramótið í röð sem Ásdís keppir á. Nú hafa tveir Íslendingar tryggt sér þátttökurétt en hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir hefur nú þegar náð lágmarki í 800 m hlaupi.

Þetta er glæsilegur árangur hjá Ásdísi og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með henni og Anítu á HM.