Norðurlandameistaramótið í frjálsum íþróttum fór fram í Uppsala í Svíþjóð í dag. 11 íslenskir keppendur kepptu á mótinu. Bestum árangri íslensku keppendanna náði hlaupakonan Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH en hún bar sigur úr býtum í 400 m hlaupi. Hljóp hún á tímanum 54,33 sekúndum sem er hennar besti tími á tímabilinu og er það jafnframt 3. besti tími hennar frá upphafi. Josefin Magnusson frá Svíþjóð hafnaði í 2. sæti á tímanum 54,77 sek og Moa Hjelmer frá Svíþjóð í 3. sæti á 54,84 sek. Þórdís Eva Steinsdóttir FH keppti einnig í 400 m hlaupi á mótinu og hljóp hún á tímanum 56,10 sek sem er hennar besti tími á tímabilinu og hafnaði hún í 6. sæti.
Hulda Þorsteinsdóttir ÍR hafnaði í 3. sæti í stangarstökki er hún stökk yfir 4,24 m í fyrstu tilraun. Þetta er jafnframt besti árangur Huldu á tímabilinu.
Ívar Kristinn Jasonarson ÍR hafnaði í 7. sæti í 400 m hlaupi á tímanum 49,58 sekúndum.
Einar Daði Lárusson ÍR hafnaði í 7. sæti í 60 m grindahlaupi er hann hljóp á tímanum 8,46 sekúndum.
Bjarki Gíslason KFA hafnaði í 8. sæti í stangarstökki er hann stökk yfir 4,86 m í fyrstu tilraun.
Kristinn Torfason FH hafnaði í 8. sæti í langstökki er hann stökk 6,93 m.
Guðni Valur Guðnason ÍR hafnaði í 8. sæti í kúluvarpi er hann varpaði kúlunni 16,36 m.
Tiana Ósk Whitworth ÍR hafnaði í 8. sæti í 60 m hlaupi er hún hljóp á tímanum 7,65 sek.
Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir UMSS hafnaði í 7. sæti ásamt Tina Bischoff Gellin frá Danmörku er hún stökk yfir 1,73 m.
Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki hafnaði í 7. sæti í langstökki er hún stökk 5,66 m.
Flottur árangur hjá okkar fólki en öll úrslit mótsins má sjá hér.