Aldursflokkamet hjá Elísabetu Rut í sleggjukasti

Kastmót ÍR fór fram í Laugardalnum í kvöld þar sem keppt var í sleggjukasti og kringlukasti. Á meðal keppenda var Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR, sem stendur í ströngu við undirbúning fyrir Ólympíuleika Ungmenna. Sá undirbúningur gengur vel því Elísabet bætti sinn persónulega árangur og um leið aldursflokkamet stúlkna 16-17 ára í sleggjukasti þegar hún kastaði 66,81 metra. Fyrra metið átti Elísabet sjálf sem hún setti fyrr í sumar.

Elísabet heldur til Argentínu í næstu viku ásamt Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur, ÍR, og Valdimar Hjalta Erlendssyni, FH, til að keppa á Ólympíuleikum Ungmenna sem fer fram í Buenos Aires 6. – 18. október. Með þeim fer Brynjar Gunnarsson sem þjálfari.