Ágætur árangur á 1. Sumarkastmóti ÍR og Bætingarmóti USÚ

1. Sumarkastmót ÍR fór fram á kastvellinum í Laugardal í gærkvöldi og náðist ágætur árangur í nokkrum greinum.
Sandra Pétursdóttir íslandsmethafi í sleggjukasti kastaði 52,88 metra, en íslandsmetið sem hún setti í vetur er 54,19 metrar. Aðalheiður María Vigfúsdóttir Breiðabliki varð önnur með 50,28 metra og María Ósk Felixdóttir ÍR í þriðja sæti með 42,86 metra, sem er aðeins 59 sm frá íslandsmeti Söndru í flokki stúlkna 17-18 ára.
 
Í spjótkasti kvenna sigraði Valdís Anna Þrastardóttir ÍR, kastaði 45,45 metra, sem er tæplega metra frá hennar besta árangri frá sl. ári. Þá stórbætti Guðmundur Sverrisson ÍR sinn besta árangur í spjótkasti, en hann sigraði í spjótkasti karla, kastaði 61,44 metra, en hann átti best 53,98 metra frá árinu 2007, en hann hefur átt við meiðsl að stríða frá árinu 2007, en er nú greinilega að ná vopnum sínum að nýju.
 
Þjálfarar ÍR, þeir Pétur Guðmundsson, kastþjálfari og Þráinn Hafsteinsson yfirþjálfari háðu harða keppni um sigur í kringlukasti karla, þar sem kastþjálfarinn hafi betur, kastaði 43,85m, en yfirþjálfarinn kastaði 38,80 metra.
Þeir voru báðir nokkuð frá sínum besta árangri að þessu sinni.
 
Á Bætingarmóti USÚ sl. sunnudag náði Sveinbjörg Zophoníasdóttir USÚ góðum árangri í langstökki, þegar hún stökk 5,57 metra og stórbætti sinn besta árangur, en Sveinbjörg er 17 ára á þessu ári. Þá bætti Sveinbjörg sig einnig í kúluvarpi, varpaði lengst 11,35 metra. Sveinbjörg á ekki langt að sækja hæfileikana, en hún er dóttir Guðrúnar Ingólfsdóttur, íslandsmethafa í kringlukasti.

FRÍ Author