Afreksúthlutun FRÍ 2019

Úthlutun úr afrekssjóði FRÍ fór fram síðastliðinn föstudag. Alls voru 14 milljónum úthlutað til 20 íþróttamanna.

Meginhlutverk afrekssjóðs FRÍ er að búa afreksfólki og afreksefnum í frjálsíþróttum fjárhagslega og faglega umgjörð til að hámarka árangur sinn.
Styrkveitingar skulu hafa það að meginmarkmiði að styðja við afreksfólk og afreksefni vegna undirbúnings og verkefna, jafnt á fjárhagslegan hátt sem og með aðgengi að ráðgjöf og þjónustu sem snýr að umhverfi afreksíþrótta sem skilgreind eru í afreksstefnu og aðgerðaráætlun FRÍ.

Afreksefni FRÍ undir 23 ára

Afreksefni FRÍ eru þeir einstaklingar sem náð hafa EAA/IAAF lágmarki til keppni á stórmót ungmenna og eru í stórmótahópi FRÍ. Þessi móti eru EM U23, EM U20, EM U18, HM U20 og HM U18. Að þessu sinni eru það alls 13 einstaklingar sem náð hafa þessum áfanga

– Andrea Kolbeinsdóttir, ÍR
– Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðablik
– Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR
– Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR
– Erna Sóley Gunnarsdóttir, ÍR
– Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA
– Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR
– Helga Margrét Haraldsdóttir, ÍR
– Irma Gunnarsdóttir, Breiðablik
– Tiana Ósk Whitworth, ÍR
– Thelma Lind Kristjánsdóttir, ÍR
– Valdimar Hjalti Erlendsson, FH
– Þórdís Eva Steinsdóttir, FH

Sérstyrkur FRÍ

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hlýtur sérstyrk FRÍ fyrir magnaða frammistöðu á EM U18 ára og á Ólympíuleikum ungmenna 2018. 

Afreksfólk FRÍ

Til afreksfólks FRÍ teljast þeir einstaklingar sem náð hafa EAA/IAAF lágmarki til keppni á stórmóti, það er EM, HM eða Ólympíuleikar í fullorðinsflokki og/eða þau sem við lok keppnisárs eru á meðal 50 efstu á árslistaIAAF eða 25 efstu á árslista EAA. Einnig þeir íþróttamenn sem ná 1100 stigum eða meira á stigalista IAAF og/eða afreksefni sem komast í úrslit á EM eða HM U23/U20. Að þessu sinni eru það alls sex einstaklingar sem náð hafa þessum áfanga.

– Aníta Hinriksdóttir, ÍR
– Ásdís Hjálmsdóttir, Ármann
– Hafdís Sigurðardóttir, UFA
– Hilmar Örn Jónsson, FH
– Hlynur Andrésson, ÍR
– Sindri Hrafn Guðmundsson, FH

Framúrskarandi íþróttafólk FRÍ

Framúrskarandi íþróttafólk eru þeir einstaklingar sem skipa sér með árangri sínum í fremstu röð íþróttafólks í heiminum. Þeir sem ná í úrslitakeppni á stórmótum, Ólympíuleikum, HM eða EM, og enda meðal 12 fremstu eða ná að vera meðal 24 fremstu á heimslista IAAF eða 12 fremstu á Evrópulista EAA. Guðni Valur Guðnason úr ÍR hefur náð þessum áfanga. Hann er í 22. sæti heimslistans og í 14. sæti Evrópulistans í kringlukasti. Hann náði lágmarki og keppti á EM í Berlín 2018 þar sem hann endaði í 16. sæti. Besti árangur hans er 65,53 metrar sem gefur 1162 stig.