Ingi Rúnar í 2. sæti og Arna Stefanía í 3. sæti á NM í þraut.

Ingi Rúnar Kristinsson endaði í öðru sæti með 6933 stig, aðeins 58 stigum frá titlinum og 53 stigum frá íslandsmeti í flokknum. Dagurinn fór þokkalega af stað hjá honum og var Ingi við sitt besta í 100m, (11.64) í langstökki (5.92) og kúluvarpi ( 14.03, 5.kg) síðan óx honum ásmegin og stökk 1.84 í hástökki sem er PB utanhúss. Fyrir síðustu greinina þá var Ingi í 3.sæti en átti sterka grein eftir 1000m. Hlaupið var lagt upp þannig að hann splittaði 800m á 2.10 og stefnt á undir 2.41mín í hlaupinu til að ná undir íslandsmetið. Ingi hljóp mjög vel og stakk af Filip Hjort, Svíann sem leiddi þrautina, ásamt því að vinna finnann Juuso Hassi, sem var í öðru sæti með 11.sek mun í hlaupinu. Ingi splittaði í gegnum 800m á 2.11 en erfitt var að halda þann hraða út, síðustu 100 metrarnir voru þungir eftir hratt hlaup og kom hann í mark, annar, á tímanum 2.46,71 sem er frábær tími samt sem áður. Annað sætið staðreynd!

Arna Stefanía Guðmundsdóttir kom sterk inn í  seinni dag og kom mörgum á óvart með frábærum árangri. Eftir fyrri dag þrautarinnar var Arna í 7.sæti  en eftir langstökk og spjót var hún komin í baráttu um verðlaun. Hún byrjaði seinni dagi með bætingu í langstökki upp á 5.35 metra stökki og fylgdi því eftir með því að lenda í öðru sæti í spjótkasti þegar hún kastaði 34.88 metra. Arna varð 2. í 800m sem var síðasta grein dagsins og hljóp hún á 2:14,93 mín sem er stórbæting hjá henni úr 2:19,84 mín. Arna endaði með 4.936 stig, aðeins 12 stigum á eftir Fridu Thorsås frá Noregi. Áragnur Örnu er næstbesti árangur sem náðst hefur í meyjaflokki í þessari grein. Aðeins Helga Margrét Þorsteinsdóttir hefur náð betri árangri í þessum flokki eða 4,995 stigum.

Stefanía Valdimarsdóttir var í 4.sæti eftir fyrri dag sömu þrautar og byrjaði seinni dag með góðu langstökki upp á 5.53 m. Þá kastaði hún 27.37m í spjóti. Bæting í báðum greinum. Stefanía náði sér ekki nægilega á strik í 800 metrunum, kom í mark á 2.24,93 sek og landaði 4.sætinu örugglega.

Bjarki Gíslason varð fimmti í flokki U23. Bjarki átti ágætt grindahlaup (15.46 sek) og bætti sig í kringlukasti (30.23m) og stökk 4.40m í stöng. Bjarki átti fínan fyrri dag en var ekki eins sáttur við seinni daginn. 5.sætið var landað í lygnum sjó.

Sveinbjörg endaði þrautina með 4815 stig og náði persónulegu markmiði sínu fyrir helgina. Hún bætti sig í langstökki með 5.80m í þriðju tilraun og sigraði þá grein glæsilega. Einni bætti hún sig um rúmar 2 sek í 800m og endaði í 6 sæti. 215 stig voru upp í 3.sæti hjá Sveinbjörgu.

Svíar tóku 5 af 6 titlunum á mótinu og eru með sterkan þrautarhóp.

Íslendingar mega vel við una við árangur okkar fólks sem voru landi og þjóð til sóma. Þau sýndu mikinn keppnisvilja og allir skemmtu sér vel.

FRÍ Author