88. Meistaramót Íslands um helgina

 Góð skráning er í flestar greinar og því mun keppni verða mikil og spennandi í flestum greinum mótsins. Flestir keppendur er skráðir til leiks í 100 m hlaupi karla, eða 33 talsins og í 200 m hlaupi karla eru skráðir 30 keppendur til leiks.  Í 400 m hlaupi karla er nánast tvöföldun á keppendafjölda greinarinnar frá því í fyrra eða 24 keppendur mæta til leiks.  Lang fjölmennastu greinarnar í kvennaflokki eru 100m hlaup og langstökk með 24 konum skráðum til leiks í hvorri grein.  Ef litið er til kastgreinanna má sjá að þátttaka kvenna er góð að þessu sinni.  Í spjótkasti og kúluvarpi kvenna eru 14 konur skráðar til leiks í hvorri grein og í karlaflokkunum eru 11 skráðir í spjótkastið og 7 í kúluvarpið. Jöfn skráning kynja er í sleggjukasti eða 7 keppendur í hvorum flokki.  Í kringlukasti eru karlmennirnir þremur fleiri en konur eða 13 talsins á móti 10 konum.

 Alls er keppt í 37 greinum karla og kvenna. Auk þess sem sigurvegari í hverri grein hlýtur Íslandsmeistaratitil, hljóta stigahæstu liðin í karla- og kvennaflokki og sameiginlega sérstakar viðurkenningar. Einnig verða veittar sérstakar viðurkenningar til þeirra konu og karls sem vinna bestu afrekin á mótinu, skv. alþjóðlegri stigatölfu.

 Flest okkar besta fólk mætir til leiks, þar á meðal Ármenningarnir þau Ásdís Hjálmsdóttir (spjótkast) og Óðinn Björn Þorsteinsson (kúluvarp).  Aníta Hinriksdóttir sem varð Heimsmeistari 17 ára og yngri og Evrópumeistari 19 ára og yngri í 800 m hlaupi í fyrra sumar mun hlaupa 1500 m á mótinu og gera þar atlögu að Íslandsmeti Ragnheiðar Ólafsdóttur, 4:14,94 mín, frá árinu 1987.   Hafdís Sigurðardóttir tekur þátt í 5 greinum á mótinu.  Í langstökki mun hún reyna við lágmark á Evrópumeistaramótið sem fer fram í Zürich seinna i sumar og í þrístökki mun hún gera atlögu að Íslandmeti Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur frá árinu 1997 og er 13,18 m. Hafdís mun jafnframt hlaupa 100 m hlaup, 200 m hlaup og 400 m hlaup. Einnig mæta til leiks þrautarfólkið þau Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr FH og Einar Daði Lárusson úr ÍR.  Einar Daði mun keppa í 5 einstaklingsgreinum og Sveinbjörg í 4.  

Meistaramótið verður síðasta mót þeirra sem fara á Heimsmeistaramót 19 ára og yngri sem fer fram í Eugene, Oregon, 20. – 27. júlí en meiri hluti hópsins heldur utan strax á mánudag.  Þetta eru þau Hilmar Örn Jónsson, ÍR, sem keppir í sleggjukasti karla, Sindri Hrafn Guðmundsson úr Breiðabliki sem mætir ÍR-ingnum og EM faranum Guðmundi Sverrissyni í spjótkasti og spretthlaupararnir Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS og Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA.  Einnig er Aníta meðal HM faranna en hún keppir í 800 m hlaupi i Eugene.

Nánari upplýsingar er að finna á mótaforriti FRÍ og úrslit verða birt beint á netinu

FRÍ Author