87. Meistaramót Íslands um helgina

 Góð skráning er í flestar greinar og því mun keppni verða mikil og spennandi í flestum greinum mótsins. Flestir keppendur er skráðir til leiks í 100 m hlaupi karla, eða 28 talsins, 26 í 200 m hlaupi karla og 13 í 400 m hlaupi karla og kringlukasti karla.  Í 5.000 m hlaupi karla má búast við hörku keppni þar sem 12 keppendur eru skráðir til leiks.  Fjölmennasta greinin í kvennaflokki er 100m hlaup með 22 konum skráðum til leiks.  Í langstökki og hástökki verða þær 15 talsins, í kringlukasti 14 og í spjótkasti 13.

 Alls er keppt í 37 greinum karla og kvenna. Auk þess sem sigurvegari í hverri grein hlýtur Íslandsmeistaratitil, hljóta stigahæstu liðin í karla- og kvennaflokki og sameiginlega sérstakar viðurkenningar. Einnig verða veittar sérstakar viðurkenningar til þeirra konu og karls sem vinna bestu afrekin á mótinu, skv. alþjóðlegri stigatölfu.

 Flest okkar besta fólk mætir til leiks, þar á meðal ólympíufararnir þau Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni (spjótkast) og Óðinn Björn Þorsteinsson úr FH (kúluvarp).  Ný krýndur Heimsmeistari 17 ára og yngir og Evrópumeistari 19 ára og yngri í 800 m hlaupi, Aníta Hinriksdóttir, mun spreyta sig í 400 m hlaupinu á móti Hafdísi Sigurðardóttir frá UFA.   Hafdís mun jafnframt hlaupa 100 m hlaup og stökkva langstökk en hún setti nýtt glæsilegt Íslandsmet í greininni í byrjun sumars.  Einnig mæta til leiks sjöþrautarstúlkurnar knáu þær Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr FH, Arna Stefanía Guðmundsdóttir úr ÍR og María Rún Gunnlaugsdóttir, Ármanni til leiks. Hilmar Örn Jónsson, ÍR, mætir til leiks í sleggjukasti karla og áhugavert verður að sjá hvernig honum tekst til með karlasleggjuna (7,26 kg) eftir að hafa kastað 6 kg sleggjunni svo glæsilega á EMU20 í Rieti.  

Búast má við mikilli keppni í 100 m hlaupi og 400 m hlaupi karla, en þar munu meðal annarra mæta til leiks Kolbeinn Höður Gunnarsson, UFA, Ívar Kristinn Jasonarson, ÍR og Óli Tómas Freysson úr FH.

Nánari upplýsingar er að finna á mótaforriti FRÍ og úrslit verða birt beint á netinu

FRÍ Author