85. Meistaramót Íslands um helgina á Selfossi

Alls er keppt í 47 greinum karla og kvenna. Auk þess sem sigurvegari í hverri grein hlýtur Íslandsmeistaratitil, hljóta stigahæstu liðin í karla- og kvennaflokki og sameiginlega sérstakar viðurkenningar. Einnig verða veittar sérstakar viðurkenningar til þeirra konu og karls sem vinna bestu afrekin á mótinu, skv. alþjóðlegri stigatölfu.
 
Flest okkar besta fólk mætir til leiks, þar á meðal Ásdís Hjálmsdóttir (spjótkast), Óðinn Björn Þorsteinsson (kúluvarp), Bergur Ingi Pétursson (sleggjukast), en þau þurfa öll að fara að ná lágmörkum inn á Heimsmeistaramótið sem haldið verður í Daegu í Kóreu í lok ágúst og byrjun september nk. Þær Sveinbjörg Zophoníasdóttir og Stefanía Valdimarsdóttir verða reyndar fjarri góðu gamni, en þær taka þátt í Evrópubmeistaramóti 19 ára og yngri sem fram fer í Tallinn í Eistlandi um helgina. Þá er óvíst með þátttöku Helgu Margrétar Þorsteinsdóttur, en hún varð fyrir meiðslum á Evrópumeistaramóti unglinga í Ostrava um síðustu helgi.  Ennfremur mun Kristinn Torfason keppa bæði í langstökki og þrístökki en hann er ekki langt frá lágmarki á HM í langstökkinu.
Búast má við mikilli keppni í 100 m hlaupi karla, en þar munu mæta til leiks Óli Tómas Freysson sem á besta tíma Íslendings í ár, Sveinn Elías Elíasson sem er óðum að komast í sitt besta form aftur og tugþrautarkappinn Einar Daði Lárusson sem einnig er að koma mjög sterkur til leiks á þessu ári eftir fjarveru vegna meiðsla á síðasta ári.
 
Einnig má búast við mjög góðri keppni í stangarstökki karla, en þar mætast þeir Mark Johnsson, Bjarki Gíslason, Gauti Ásbjörnsson og Einar Daði Lárusson sem allir hafa verið að stökkva á bilinu 4,80 til 4,90 m undanfarið. Þá mun Kristján Gissurarson mæta til leiks, en hann hefur best stokkið 5,06 m, en það var reyndar fyrir 18 árum, en hann varð 58 ára þann 6. júlí sl.
 
Undanfarin ár hafa þær Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir att miklu kappi saman á hlaupabrautinn í 100 og 200 m hlaupum og má búast við mikill keppni milli þeirra nú sem áður.

Nánari upplýsingar er að finna á mótaforriti FRÍ og úrslit verða birt beint á netinu hér.

FRÍ Author