47. Bikarkeppni FRÍ á Þórsvelli á Akureyri um helgina

Nýbakaður methafi og Norðurlandameistari í 800 m hlaupi kvenna Aníta Hinriksdóttir ÍR mun taka nokkra spretti fyri sitt félag, þar á meðal í sinni aðalgrein, 800 m hlaupi. Búast má við að mótsmetið í 800 m hlaupinu geti fallið, en það var sett árið 1987 og er 2:11,15 mín. Einnig mæta til leiks fyrir sitt félag Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir sem m.a. keppti á HM innanhúss í Istanbul í vor og tugþrautarkappinn Einar Daði Lárusson sem hefur bætt sinn árangur mikið á árinu og keppti m.a. á EM í Helsinki í sumar.

FH-ingar mæta til leiks með Óðinn Björn Þorsteinsson kúluvarpara og ólympíufara fremstan í flokki margra góðra íþróttamanna. Þar á meðal eru þeir Kristinn Torfason sem keppti á HM í fyrra í langstökki og hlauparan Trausta Stefánsson sem m.a. tók þátt á HM í Istanbul í mars sl.

Úrvalslið Norðurlands verður mætt til leiks og þar á meðal langstökkvarinn Þorsteinn Ingvarsson sem lítið hefur haft sig frammi á þessu keppnistímabili. Langstökkvarinn Hafdís Sigurðardóttir mun einnig láta til sín taka. Breiðablik mætir til leiks með marga góða íþróttamenn þar á meðal nýbakaðan Norðurlandameistara í 400 m grindarhlaupi, Stefaníu Valdimarsdóttur og ólympíufaran Kára Stein Karlsson.

Keppni verður spennandi í flestum greinum og búast má við góðum árangri þar sem keppendur leggja því sem næst allt í sölunar fyrir sigur, sæti og árangur. Mikil keppni hefur verið milli spjótkastaranna Guðmundar Sverrissonar ÍR, Sindra Hrafns Guðmundssonar Breiðabliks og Arnar Davíðssonar FH. Mikil keppni verður einnig í 100 m grindarhlaupi kvenna, en þar eru m.a. skráðar til leiks Sveinbjörg Zophoníasdóttir FH, Kristín Birna Ólafsdóttir ÍR, Fjóla Signý Hannesdóttir HSK og Stefanía Valdimarsdóttir Breiðablik.

Allar nánari upplýsingar um mótið eru hér, keppendalisti, tímaseðill o.fl. þá verða úrslit birt jafnóðum og þau eru skráð inn hér.

Þó flestir keppendur séu um tvítugt og á þrítugsaldri, er talsverð aldursbreidd er meðal keppenda sem skráðir eru til leiks. 31 ár er milli elsta og yngsta keppanda mótsins Ólafs Guðmundssonar HSK sem fæddur er 1969 og Þórdísar Steinsdóttur FH sem fædd er árið 2000. Þórdís mun væntanlega etja kappi við Fríðu Rúnar Þórðardóttur ÍR í 1500 m hlaupinu sem fædd er árið 1970 og er því 30 ára munur á milli þeirra tveggja. Því verður ekki annað sagt en kynslóðabilið sé vel brúað í frjálsíþróttum.

FRÍ Author